Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:28]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Frú forseti. Ég held að orðið snjóhengja hafi verið notað í íslenskri þýðingu á enska hugtakinu „fiscal cliff“ eins og var hérna í kringum hrunið, með leyfi forseta. Ég veit ekki hvort snjóhengja virkar vel sem þýðing á „cliffhanger“ í staðinn fyrir spennandi endi, kannski er hægt að finna eitthvert eitt orð yfir þetta og gera það sem okkur er tamt á Íslandi; búa til ný hugtök.

En ég ætlaði að fjalla aðeins um umsagnirnar sem eru kjarninn í því sem við erum að glíma við í þessu máli, við þingmenn, því að það eru ekki allir sérfræðingar í öllu hérna. Þó að við kynnumst vissulega mörgum málum frá ýmsum sjónarhornum aftur og aftur, af því að mörg mál eru lögð oft fram, þá skortir okkur oft djúpa tæknilega þekkingu á ýmsum málaflokkum. Það eru t.d. örugglega ekki allir þingmenn sem geta farið og spjallað við hvern sem er um smáatriði almannatryggingalaga. Ég fékk til að mynda ábendingu um það fyrir nokkru að það væri ákveðinn galli í þeim sem er nokkurn veginn ómögulegt að fá fólk til þess að kvitta upp á af því að það skilur ekki gallann, jafnvel þótt maður bendi því á hann. Lög um útlendinga eru svipuð ef ekki stærri að umfangi. Það er í raun stærri málaflokkur hvað tæknilegar flækjur varðar af því það er svo margt í kerfinu, á bak við lögin, í framkvæmdinni, sem stendur ekki beinlínis í lögunum. Það er bara gefinn ákveðinn vísir, ákveðnar leiðbeiningar, ákveðinn rammi og svo er búin til framkvæmd til að starfa eftir innan þess ramma. Þetta er verulega flókið og það er ekkert fyrir alla að bara ganga í lögin og reyna að skilja hvernig kerfið virkar, það er ekki nóg. Þess vegna treystum við á umsagnir þeirra sem þekkja kerfið innan frá, hafa verið að vinna í kerfinu, skilja allt ferlið og geta þá sagt okkur hvaða áhrif þessi og hin breytingartillaga við lög gæti haft í öllu þessu mismunandi ferli sem er á bak við lögin.

Ég ætla að renna örstutt yfir umsagnirnar áður en ég fer yfir þær í smáatriðum af því að það er gott að hafa heildarmyndina. Í umsögninni frá Barnaheillum eru það aðallega tvö atriði. Annars vegar að það hafi ítrekað verið kallað eftir samráði, en ekkert svoleiðis átti sér stað, því miður. Hins vegar að það sé ótækt að tafir sem rekja megi til aðstandenda barns komi niður á rétti barns til efnismeðferðar. Hérna þarf að teygja og toga aðeins og skoða hvort lagabreytingarnar séu raunverulega að gera þetta eða ekki og þá þurfum við að taka umræðu um það. En það er mjög erfitt af því að, eins og ég segi, þetta er flókið kerfi, þannig að þótt það komi ábending um að þetta gæti haft þessi áhrif þá gæti verið eitthvað annað annars staðar í kerfinu sem kemur í veg fyrir það. Þá þarf að segja það upphátt, það þarf að skrifa það í skjöl til að það sé víst að stjórnvöld ákveði ekki að túlka þetta hinsegin o.s.frv. Það er mikið um alls konar túlkanir fram og til baka í þessu kerfi sem gera það að verkum að við lendum ansi oft í því að niðurstöður dómstóla og kærunefndar eru á þann veg að framkvæmdin í þessu hafi því miður ekki verið nógu góð.

Síðan er það umsögn landlæknis þar sem eru fjögur atriði helst. Hér er sagt að það sé óásættanlegt að svipta fólk rétti til heilbrigðisþjónustu að 30 dögum liðnum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Þetta er ekkert rosalega flókið, með leyfi forseta:

„Vart þarf að fjölyrða um alvarlegar afleiðingar sem stöðvun heilbrigðisþjónustu, hvort heldur er vegna langvinnra sjúkdóma eða bráðra, getur haft í för með sér, ef ekki er brugðist við því sem upp kemur.“

Þetta er landlæknir sem við erum að tala um. Við erum ekki að tala um einhver pólitísk félagasamtök sem væri hægt að segja um: Já, já, þau eru bara með þessa pólitísku skoðun sem er andstæð okkar skoðun. Það er landlæknir sem er að tala um þetta og Barnaheill. Barnaheill er með hagsmuni barnsins að leiðarljósi og landlæknir hagsmuni sjúklinga. (Forseti hringir.)

Það er mun meira að fara yfir. Ef virðulegi forseti vildi vera svo væn að bæta mér aftur á mælendaskrá væri það vel þegið.