Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:10]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég hef verið að fjalla um 2. gr. frumvarpsins sem um ræðir, um það að setja á sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála eftir neikvæða ákvörðun af hálfu Útlendingastofnunar, og þá gagnrýni sem Rauði krossinn hefur komið með á það ákvæði. Ég er samt ekki búin að fjalla um merkilegasta hlutann af þeirri gagnrýni að mínu mati: Ástæðan fyrir því að Rauði krossinn er á móti því að stytta málsmeðferðartíma sem þessu nemur — það munar einhverjum dögum í kringum þetta — er sú að Útlendingastofnun sýnir það endurtekið í málsmeðferð sinni að hún sinnir ekki rannsóknarskyldu sinni og leyfir umsækjendum um alþjóðlega vernd heldur ekki að fá nægilegan tíma til þess að sjá þá um rannsóknarskylduna fyrir stofnunina fyrst hún sinnir henni ekki. Það er af þessum ástæðum sem Rauði krossinn leggst gegn þessari sjálfkrafa kæru. Enda stendur hér á bls. 3, aðeins neðar en ég var komin, með leyfi forseta:

„Rauði krossinn hefur um árabil lagt áherslu á að aukin skilvirkni í málsmeðferð og stytting málsmeðferðartíma sé eitt mikilvægasta skrefið til úrbóta í málaflokknum og leggst félagið því ekki gegn því að kæra verði sjálfvirk af neinum öðrum ástæðum en þeim sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Líkt og fram kemur í frumvarpinu er mikilvægt að aukin skilvirkni komi ekki niður á réttaröryggi umsækjenda, ekki síst einstaklinga sem eru mögulega í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi laganna.“

Þetta er einmitt það sem Rauði krossinn hefur verið að sýna fram á að Útlendingastofnun geri, að því er virðist kerfisbundið. Eins og ég var að fara yfir hér áðan þá sinnir Útlendingastofnun, samkvæmt því sem kemur fram hjá Rauða krossinum, ekki þeirri rannsóknarskyldu sinni að kanna hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd tilheyri hópi sem samkvæmt lögunum er skilgreindur sem hópur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sem á þá rétt á ríkari vernd en aðrir. Í umsögninni segir:

„Á þetta einnig við í málum þar sem um er að ræða einstaklinga sem falla beinlínis að einhverju þeirra atriða sem talin eru upp í 6. tölul. 3. gr. útlendingalaga, svo sem fórnarlömb mansals, fólk með geðraskanir og einstaklingar sem hafa orðið fyrir pyndingum, kynfæralimlestingum, nauðgun eða öðru alvarlegu andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi og vísbendingar liggja fyrir um afleiðingar þess á viðkomandi.“

Og þetta er það mikilvæga sem er tekið fram:

„Hefur umræddur 15 daga kærufrestur því oft nýst talsmanni og umsækjanda til nauðsynlegrar gagnaöflunar“ — þ.e. til að ná í gögn til að sýna fram á að viðkomandi tilheyri þessum sérstaklega viðkvæma hópi — „í því skyni að varpa ljósi á sérstaklega viðkvæma stöðu viðkomandi.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Algengt er sem dæmi að umsækjandi eigi bókaðan tíma hjá sérfræðingi á komandi dögum eða vikum en Útlendingastofnun fellst ekki á að bíða eftir því að gagna sé aflað í samræmi við 1. mgr. 25. gr. útlendingalaga áður en ákvörðun er tekin í málinu.“

Þau bóka ekki tíma en flóttamaðurinn sem er að sækja um vernd er búinn að bóka tíma og fær ákveðinn tíma — og við vitum hversu langan tíma það getur tekið að fá tíma hjá sérfræðingi, hvað þá fyrir einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Umsækjandi á kannski bókaðan tíma til að fá staðfest að hann glími við áfallastreituröskun, hafi orðið fyrir kynfæralimlestingum eða pyntingum. Hann vantar kannski eitthvert vottorð til að sýna Útlendingastofnun fram á það. Nei, þá er ekki hægt að bíða eftir því að viðkomandi fái að fara í þennan læknistíma til þess að fá tilskilið vottorð.

Þetta er það sem Rauði krossinn er að segja okkur í þessari umsögn. Það á að skerða enn frekar möguleika fólks til að geta náð sér í viðeigandi vottorð til að reyna af veikum mætti að sýna Útlendingastofnun fram á að víst sé um að ræða fólk sem er í neyð, fólk sem þarf að hjálpa. Þessi mantra um að við getum bara hjálpað þeim sem eru í neyð — við getum ekki hjálpað þeim ef við neitum að trúa þeim og komum í veg fyrir að þau geti aflað gagna til að sanna að þau séu í raunverulegri neyð. Það gerir það algerlega ómögulegt fyrir okkur að hjálpa fólki sem er í raunverulegri neyð.