Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:14]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Nú ætla ég að fara yfir 7. gr., sem ég er búin að nefna þó nokkuð oft hér uppi í pontu, og umfjöllun Rauða krossins um 7. gr. þessa frumvarps. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að mælt verði fyrir um sérstaka málsmeðferð endurtekinna umsókna sem geri umsækjendum um alþjóðlega vernd kleift að fá ákvarðanir í málum sínum teknar upp að nýju á grundvelli nýrra gagna og/eða upplýsinga.

Samkvæmt ákvæðinu er 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (einnig vísað til sem ssl.) um endurupptöku ekki ætlað að gilda um ákvarðanir í málum er varða alþjóðlega vernd. Rauði krossinn bendir á að stjórnsýslulög kveða á um lágmarkskröfur til stjórnsýslunnar og að ákvæði í sérlögum geta ekki gengið framar þeim réttindum sem borgurum eru tryggð með ákvæðum laganna. Í 2. gr. ssl. eru ákvæði um gildissvið laganna gagnvart öðrum lögum. Samkvæmt 2. mgr. halda ákvæði annarra laga, sem hafa að geyma strangari málsmeðferðarreglur en lögin mæla fyrir um, gildi sínu. Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi að lögunum segir enn fremur:

Þau sérákvæði í lögum, sem gera minni kröfur til stjórnvalda, þoka hins vegar fyrir hinum almennu ákvæðum í lögum þessum.“

Virðulegi forseti. Ég kom inn á þetta áðan og ætla að koma inn á þetta aftur. Ákvæði um endurupptöku máls er nú þegar til staðar í almennum stjórnsýslulögum, sem Davíð Oddsson, Sjálfstæðismaður, lagði fram á sínum tíma. Það hlýtur að ríkja sátt, meira að segja og innan Sjálfstæðisflokksins um að ákvæði þeirra lagabálks séu bara mjög fín og ágæt og virki mjög vel í framkvæmd og geri nægilega góðar kröfur til stjórnvalda þegar kemur að ákvörðun um endurupptöku máls. Því skil ég ekki alveg tilganginn með því að setja einhver sérlög í 7. gr. laga um útlendinga sem myndu þá kveða á um öðruvísi kröfur, af því að eins og kom fram í umsögn Rauða krossins er kveðið skýrt á um það að ákvæði annarra laga halda enn þá gildi sínu. Ég er aðeins að reyna að átta mig á þessu af því að það er ekki talað sérstaklega um þetta í greinargerðinni og í athugasemdum við frumvarpið, um það hvers vegna verið er að setja nákvæmlega þetta inn og hvaða rétt það mun hafa gagnvart ákvæðum stjórnsýslulaga. Það er bara rosalega skrýtið að vera að setja þetta inn því eins og ég sagði eru ákvarðanir Útlendingastofnunar, sem synjar fólki oft um vernd, stjórnvaldsákvarðanir. Um stjórnvaldsákvarðanir og stjórnvöld gilda stjórnsýslulög og ég held að það sé bara algerlega fín hefð, venja, lög, hvað sem við viljum kalla það. Það hefur virkað vel í framkvæmd hingað til og engin þörf á að breyta þessu tiltekna atriði. Það er engin þörf á því að breyta einhverju sem nær inn á gildissvið annarra laga og að útlendingalögin taki það til sín.

Mér finnst að nefndin megi taka þetta sérstaklega til umfjöllunar og reyna að meta áhrif þessa ákvæðis sérstaklega gagnvart stjórnsýslulögunum og reyna að sjá fyrir sér og ræða fram og til baka hvernig þessu verður beitt í framkvæmd. Hvenær verður ákveðið hvenær á að beita þessari heimild en ekki heimild í stjórnsýslulögum og hvers konar fordæmi skapar það þegar kemur að öðrum lagabálkum er varða stjórnvöld? Er Landspítalinn t.d. að fara að fá einhverjar sérstakar heimildir í sérlögum? Er hann að fara að fá einhverjar sérstakar heimildir í lögum um Landspítalann? Hvers konar fordæmi erum við að setja til frambúðar? Bara með því að setja þetta inn í útlendingalögin erum við að auka líkur á því að brautin verði rudd til að ganga inn á rétt stjórnvalda og ganga inn á sjálfstæði stjórnvalda með því að hafa einhvers konar sérlög sem gilda um ákvarðanir þeirra fremur en almennu stjórnsýslulögin sem hafa verið í gildi og í notkun síðan 1993.

Ég sé að tíminn er á þrotum, virðulegur forseti, og ég væri til í að halda áfram með mál mitt í næstu ræðu.