Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:15]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég er að fjalla um 6. gr. frumvarpsins og er að hrekja þær rangfærslur sem hafa komið fram, bæði í greinargerð með ákvæðinu í frumvarpinu og í máli þeirra sem telja þetta vera frábæra hugmynd. Í fyrsta lagi hefur því verið haldið fram að þarna sé verið að samræma okkar löggjöf framkvæmd og löggjöf á öðrum Norðurlöndum. Svo er ekki. Eins og ég talaði um í fyrri ræðum mínum þá er það er nefnilega ekki þannig í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við að fólk sé svipt allri þjónustu með sama hætti og er lagt til í þessu frumvarpi. Raunar er framkvæmdin alls ekkert eins í öllum þeim ríkjum sem við berum okkur saman við, alls ekki eins á Norðurlöndunum. Hún raunar mjög mismunandi á Norðurlöndunum, mjög ólík milli Svíþjóðar og Noregs, mjög ólík milli Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur og síðan eru önnur ríki Evrópu með enn annað fyrirkomulag. Það er því að mínu mati eingöngu til þess að, hvað eigum við að segja, réttlæta þetta frumvarp ranglega, að halda því fram að því sé ætlað að samræma einhverja löggjöf við evrópskan staðal. Það er ekki svo.

Mér er persónulega alveg ljóst eftir umræður um málið og eftir komu umsagnaraðila, þar á meðal dómsmálaráðuneytisins, Útlendingastofnunar, lögreglu og annarra fyrir nefndina, að meginmarkmiðið með þessu ákvæði, 6. gr. þessa frumvarps, sé að knýja fólk til að fara heim sem hefur ekki farið heim enn þá. En það eins og annað í þessu frumvarpi er byggt á þeim misskilningi að fólk sé hérna af einhverjum annarlegum hvötum, svo sem fyrir þá frábæru þjónustu sem það fær. Svo er ekki af því að sú þjónusta er bæði lítil og í lágmarki og staðan sem fólk er í er gríðarlega slæm hvernig sem á það er litið. Þannig að það að fólk fari ekki heim þrátt fyrir það held ég að segi meiri sögu en stjórnvöld og stjórnkerfið gera sér grein fyrir eða eru reiðubúin að viðurkenna.

Ég ætla að halda áfram að fara yfir það sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu og ætla aðeins að lesa upp úr greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Samkvæmt 33. gr. laganna njóta umsækjendur um alþjóðlega vernd margvíslegrar þjónustu á meðan mál þeirra eru til meðferðar hjá stjórnvöldum, svo sem húsnæðis, framfærslu og annarrar grunnþjónustu. Í grunnþjónustu felst m.a. heilbrigðisþjónusta, þar á meðal vegna andlegra veikinda, tannlæknaþjónusta og skóla- og leikskólaganga fyrir börn.“

Ég ætla að staldra við hér. Í þessari upptalningu, sem er ekki að öllu leyti röng, er hins vegar svolítið verið að afvegaleiða umræðuna því að jú, í þessari grunnþjónustu felst m.a. heilbrigðisþjónusta. Fólki er boðið upp á húsnæði en það er ekki húsnæði sem ég held að flest okkar myndu láta sér lynda, heldur er það lágmarkshúsnæði, oft einhvers konar afgangshúsnæði, jafnvel með öðrum, með öðru ókunnugu fólki, jafnvel ókunnugu fólki úr öðrum menningarheimi sem getur verið mjög snúið. Við vitum hvað það getur verið erfitt að búa með fólki úr sama menningarheimi, hvað þá þegar það koma einhverjir tungumálaörðugleikar eða annað inn í myndina. Stundum þurfa einstaklingar að deila herbergi með ókunnugu fólki en oft er fjölskylda sett t.d. í herbergi. Ég held að fjölskyldur séu sjaldan í einu herbergi til lengri tíma, en ég þekki það þó ekki. Það veltur svolítið á því hver þjónustuveitandinn er.

Framfærslan er 10.400 kr. á viku. Ég komst nú bara að því fyrir einum degi að það er búið að hækka hana frá því þegar ég var í þessu, þá voru það 8.000 kr. á viku, mér skilst að það séu nú 10.400 kr.

Þá er ég að renna út á tíma. En það sem ég vildi leiðrétta áður en ég fell á tíma, ég mun svo halda áfram með þetta ákvæði í minni næstu ræðu, er varðandi tannlæknaþjónustuna. Tannlæknaþjónusta — jú, þú getur fengið að sjá tannlækni ef þú færð illt í tönnina en það er í rauninni bara ef kvölin er orðin það mikil að hún er óbærileg. Færðu þá viðgerð á tönnina? Nei, í rauninni ekki nema tannlæknirinn ákveði að gera það á sinn eigin kostnað. Ef tönnin er skemmd er hún dregin úr eða þú færð bara munnskol og við vonum að þetta líði hjá. (Forseti hringir.) Þetta er sú þjónusta sem er í boði. — Ég óska eftir því, forseti, að fara aftur á mælendaskrá.