Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:32]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég var að fara yfir greinargerð með þessu frumvarpi um 6. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að fella niður alla þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem þá reyndar eru ekki lengur umsækjendur um alþjóðlega vernd, við útlendinga, 30 dögum eftir að þau hafa fengið lokaniðurstöðu varðandi hælisumsókn á stjórnsýslustigi. Ég var búin að hrekja og gagnrýna þær fullyrðingar að þetta væri eitthvað í samræmi við það sem gengur og gerist í öðrum ríkjum, en svo er ekki. Til að nefna dæmi, bara til að segja frá því lauslega og í örfáum orðum, þá býr fólk í Svíþjóð meðan á umsóknarferli stendur hér og þar um landið. Í Noregi t.d. hefur verið gert samkomulag. Það er ákveðið fyrirkomulag í Noregi, sem ég held að við ættum að líta til miklu frekar en að skálda upp eitthvert svona bull og segja að það sé frá Norðurlöndunum, að raunverulega líta til þess sem Norðurlöndin eru að gera vegna þess að þau hafa mikla reynslu, þau hafa lært, þau eru að gera fullt af góðum hlutum. Í Noregi er t.d. samstarf við sveitarfélögin gríðarlega gott, að því er okkur skildist, með öllum venjulegum fyrirvörum þar sem sveitarfélögin fá í rauninni ákveðna greiðslu með hverjum einstaklingi sem þau taka upp á sína arma og greiðslan er óháð því hvernig gengur að aðstoða viðkomandi að fóta sig í samfélaginu sem gerir það að verkum að sveitarfélagið hefur hag af því, fjárhagslega hagsmuni, af því að það virðist nú oft stýra hlutunum þegar upp er staðið, af því að styðja viðkomandi til komast inn í samfélagið, við að læra tungumálið, við að byggja sér upp félagslegt net, við að öðlast færni og vera í ástandi til að komast út á atvinnumarkað eða í nám. Þá heldur sveitarfélagið samt eftir þeim peningum sem ríkið var búið að greiða sveitarfélaginu til þess að aðstoða viðkomandi. Það hljómaði alla vega þannig eins og það var kynnt fyrir okkur í allsherjar- og menntamálanefnd þegar við fórum þangað út til að kynna okkur hvernig þetta er gert þar í landi og í Danmörku. Þetta var eitt af því sem mér fannst hljóma eins og rammi sem væri að virka og þau töluðu vel um þetta. Noregur og Danmörk, hvorugt þessara ríkja sendir fólk skilyrðislaust t.d. til Grikklands þrátt fyrir að þau séu ekki með hina frábæru sérreglu sem tíðrætt er um að við séum með í íslenskum lögum.

Varðandi sérreglurnar þá langar mig til að benda á það — og ég mun nú benda betur á það í umfjöllun minni um 8. gr. þar sem þessar sérreglur eru einmitt í 36. gr. laga um útlendinga, þær sérreglur sem þarna er verið að tala um — að í þessu frumvarpi er ekki lagt til að afnema þessar sérreglur. Þetta eru tvær reglur, nátengdar reyndar. Það er ekki lagt til. Það er ekki verið að leggja til í þessu frumvarpi að við afnemum sérreglurnar sem við erum með, sem ég veit ekki til þess að fyrirfinnist á öðrum Norðurlöndum eða í öðrum Evrópuríkjum, ef út í það er farið, þó að ég hafi nú reyndar ekki algerlega rýnt í gegn löggjöf allra Evrópuríkja. Reyndar er önnur þessara sérreglna tímafrestir sem eru sannarlega ekki séríslenskt fyrirbæri þó að sú útfærsla sé að mínu viti séríslensk. Það er smá útúrdúr.

Varðandi þjónustusviptinguna þá er þetta eitthvert þrautaúrræði. Þetta er einhver örvæntingartilraun stjórnvalda, hæstv. dómsmálaráðherra, sem virðist gera margt í örvæntingu þessa dagana og ekki úthugsað. Þetta virðist vera hugsað til þess einmitt að bregðast við einhverju sem ríkisstjórnin veit ekki hvernig hún á að bregðast við, sem er fólk sem, líkt og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson var að varpa ljósi á hérna áðan, telur sig ekki geta farið heim þrátt fyrir það að stjórnvöld séu á þeirri skoðun að þau geti farið heim. Það er ekki þannig að fólk sé hérna af því að það er svo frábær þjónusta. Það er hérna vegna þess að það raunverulega óttast að fara til baka. Það telur sig ekki geta farið til baka. Í skýrslu Rauða krossins á Íslandi um stöðu fólks sem hefur fengið lokasynjun og stendur til að flytja úr landi þó að það sé ekki hægt eru nefnd tvö dæmi þar sem þolendur mansals í þessum hópi segjast ekki geta farið aftur til heimaríkis vegna þess að þar voru þær þvingaðar í mansal. Og næst þegar ég kem hérna upp í ræðu, svo ég geri þetta nú spennandi fyrir áhorfendur, (Forseti hringir.) þá ætla ég að fjalla um svar ráðuneytisins við fyrirspurn minni um veitingu dvalarleyfa til fórnarlamba mansals hér á landi. (Forseti hringir.) — Ég óska eftir því við forseta að fá að fara aftur á mælendaskrá.