Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:59]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Á vakt síðasta forseta var ég að vinda mér í lok umfjöllunar minnar um fólk í umborinni dvöl, þ.e. einstaklinga sem hafa flogið til Íslands, sótt um alþjóðlega vernd og fengið endanlega synjun en einhverra hluta vegna er ekki hægt að koma þeim til annars lands, þau eru innlyksa hér, vilja sjálf mögulega ekki fara aftur til heimalandsins sem þau flúðu frá og íslensk stjórnvöld t.d. ekki með samning við heimalandið til að geta framkvæmt þvingaða brottvísun. Þar við situr, fólkið getur verið hér árum saman og eins og gerist þegar fólk er einhvers staðar árum saman þá getur það stundum eignast börn. Hvað kemur fyrir þessi börn fólks sem er ekki alvöruhluti af íslenska kerfinu en er ekki heldur hluti af kerfi þess lands sem þau eru ríkisborgarar í? Jú, staða þessara barna verður mjög óljós þegar kemur að ríkisfangi. Vegna þess að þær breytingar sem lagt er upp með í þessu frumvarpi hér eru líklegar til að stækka þann hóp sem dvelst í umborinni dvöl á Íslandi, töluvert jafnvel, eins og kemur fram í ábendingum Rauða krossins á Íslandi, þá er full ástæða til að hafa áhyggjur af þessari stöðu. Það er nefnilega réttur fólks að eiga ríkisfang.

Við fengum fyrir rúmu ári í heimsókn fulltrúa frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Talskona stofnunarinnar á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndum kom hingað og hvatti stjórnvöld til dáða, benti á að Ísland gæti orðið fyrsta Evrópuríkið til að uppræta ríkisfangsleysi. Til þess þurfi bæði að gera ferlið við að fá ríkisborgararétt einfaldara og sveigjanlegra almennt, en hún nefndi sérstaklega stöðu barna sem fæðast hér eða koma hingað ríkisfangslaus. Þau geta nefnilega ekki öðlast ríkisborgararétt fyrr en eftir þriggja ára samfellda dvöl í landinu. Þetta vill Flóttamannastofnunin sjá breytast vegna þess að ekkert barn eigi að vera ríkisfangslaust, ekki einu sinni í stuttan tíma, þau eigi rétt á ríkisfangi.

Það hefur nú tekið dálítinn tíma að fá alþjóðareglur um ríkisfang inn í íslenska löggjöf, að láta hana samrýmast alþjóðlegum skuldbindingum. Þær eru þó nokkrar þegar kemur að ríkisfangsleysi; í fyrsta lagi samningur Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá 1954 og samningur um að draga úr ríkisfangsleysi frá 1961. Tökum eftir, forseti, að þessir samningar spretta upp á svipuðum tíma og flóttamannasamningurinn. Flóttamannasamningurinn er frá hvað, 1951 og þetta gerist ekkert að ástæðulausu. Þetta eru árin eftir seinni heimsstyrjöldina þegar reyndi virkilega á þolmörk alls í mannlegu samfélagi. Árin og jafnvel áratugina eftir sköpuðust aðstæður til að ná saman um alþjóðasamninga á sviði mannréttinda sem — þetta var svona augnablik í mannkynssögunni sem hefur varla verið endurtekið. Það var eins og í kjölfar hörmunganna sem seinni heimsstyrjöldin var hafi fólk bara áttað sig á því að mannúðin skipti kannski mestu máli. Þess vegna var lagður grunnurinn að öllum þessum samningum á þeim tíma. Mig langaði að fjalla aðeins um hvernig íslensk stjórnvöld hafa verið að innleiða þessa samninga í löggjöf og hvernig það snertir það frumvarp sem er hér en mun kannski koma betur að því síðar.