Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:55]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Um þann vanvilja forseta til að kalla málið aftur inn til nefndar og fresta 2. umr. vegna þess að það eigi að kalla málið inn á milli 2. og 3. hef ég þetta að segja: Það að kalla málið inn á milli 2. og 3. felur í sér að það þarf að greiða atkvæði um málið eftir 2. umr. Þá er verið að biðja þingmenn um að taka afstöðu til fjölda atriða sem í fyrsta lagi fjöldamörg mannréttindasamtök og sérfræðingar á sviði mannréttindamála eru búin að lýsa yfir að sé bara mikill efi um að standist stjórnarskrá. Og í öðru lagi: Þegar það er búið að lýsa því yfir að það eigi að gera einhverjar breytingar á þessu frumvarpi, hvernig er hægt að taka raunhæfa afstöðu til atriða í frumvarpinu þegar við vitum ekki einu sinni hvaða atriðum má breyta, hvernig á að breyta þeim eða hvað? Málið eins og það stendur núna er hvorki fugl né fiskur, það er ótækt til afgreiðslu. Það verður að senda aftur til nefndar til betri úrvinnslu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)