Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:03]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að hafa forseta hér í stól þar sem mig langar að leita skilnings forseta á 8. gr. þingskapalaga. Þar segir, með leyfi forseta:

„Forseti stjórnar umræðum og sér um að allt fari fram með góðri reglu. Hann skal sjá til þess að störf þingsins séu í samræmi við ákvæði stjórnarskrár, þingskapa og annarra laga.“

Nú hefur komið fram hér í umræðum síðastliðna daga að verið er að ræða frumvarp sem hvorki stenst stjórnarskrá né alþjóðlega sáttmála sem hafa verið lögfestir á Íslandi. Þá er það spurning mín, virðulegi forseti, hvort þetta krefjist þess ekki skv. 8. gr. að forseti hlutist til um það að málið sé sent aftur í nefnd þar sem það er ekki stjórnarskrár- eða lögtækt.