Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:19]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Mig langar að halda áfram að tala um 8. gr. þingskapalaga en í 5. mgr. þeirra laga stendur, með leyfi forseta:

„Forseti hefur umsjón með starfi þingnefnda …“

Ég tel mikilvægt að forseti taki á því þegar þingnefnd sinnir ekki því hlutverki að taka tillit til ábendinga. Þar að auki stendur í 37. gr. þingskapalaga að stjórnarfrumvörpum skuli fylgja mat á áhrifum, þar með talið mat á fjárhagslegum áhrifum við lögfestingu þeirra og forseti getur sett leiðbeiningarreglur um frágang lagafrumvarpa.

Nú hefur komið fram að þessu frumvarpi fylgir ekki mat á því hvort það standist stjórnarskrá. Ég tel því að það uppfylli ekki 37. gr. og ekki heldur handbók Stjórnarráðsins og að nefndin hafi ekki unnið sitt starf. Því óska ég eftir að virðulegur forseti skýri út af hverju hann hleypir svona frumvarpi frá nefndum í gegn.