Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:20]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er gott að hæstv. forseti verður með okkur eitthvað um sinn því að við höldum áfram að fara yfir það hvernig þetta mál stenst ekki stjórnarskrá. Það skiptir máli upp á fundarstjórn forseta vegna þess að klárist þessi umræða er hæstv. forseta einboðið að senda málið í atkvæðagreiðslu. Ég tel ekki hægt að greiða atkvæði um frumvarp þar sem jafn efnismiklar efasemdir eru uppi um að það standist stjórnarskrá. Ég vildi sérstaklega benda á að breyttar reglur um endursendingar geta varðað 68. gr. stjórnarskrárinnar og vil bara tengja þessar breyttu reglur um endursendingar 68. gr. stjórnarskrárinnar, bann við pyndingum, og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ég tel þetta mjög veigamikla grein og mjög mikilvægt að fá úr því skorið hvort ákvæði frumvarpsins um endursendingar standist yfir höfuð 68. gr.. Ég held að við viljum ekki að sú staða komi upp að Ísland verði dæmt fyrir (Forseti hringir.) brot á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem mun því miður gerast, að ég tel, verði þetta frumvarp samþykkt.