Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:40]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég hef verið að fara hér yfir það glapræði sem 6. gr. þessa frumvarps felur í sér sem er að svipta fólk rétti á allri framfærslu, þeirri litlu framfærslu sem það hefur átt rétt á, henda því út á götuna og neita því um heilbrigðisþjónustu. Þegar við höfum verið að benda á hversu ómannúðlegt þetta ákvæði sé þá hefur okkur verið bent á það á móti að það sé fullt af undantekningum á þessu ákvæði, að það séu bara allir og amma þeirra undanþegnir þessu ákvæði og það séu bara í raun fullhraustir kallar — því er sleppt að minnast á konur sem eiga á hættu að verða fyrir þessu ákvæði. Ekki það að það sé réttlætanlegt að henda nokkrum manni á götuna og svipta hann heilbrigðisþjónustu og allri getu til að framfleyta sér á nokkurn lögmætan máta. Gleymum því ekki, virðulegi forseti, að fólk í þessari stöðu, sem getur einhverra hluta vegna ekki komið sér frá Íslandi, hefur ekki fengið stöðu flóttamanns hér á landi og er búið að ákveða að svipta allri þjónustu, hefur ekki atvinnuleyfi þannig að það getur ekki unnið fyrir sér. Svo að ég fari aftur yfir það hvers vegna þetta er svona ótrúlega skelfilegt ákvæði þá er það vegna þess að verið er að setja upp ákveðna kúgunargildru sem mun ekki virka til þess að fólk yfirgefi landið, hún mun virka til þess að jaðarsetja og niðurlægja þennan hóp enn frekar en nú er gert. Hún mun ekki virka í þeim tilgangi að neyða fólk til að fara af landi brott, sem er yfirlýst markmið með þessu ákvæði. Það er búið að staðfesta það aftur og aftur að tilgangurinn með þessu ákvæði er að neyða fólk til að fara úr landi, bara eitthvert annað en að vera á Íslandi. Mér finnst það virkilega sorgleg hugmyndafræði; verum bara nógu ógeðsleg við þau og þá fara þau kannski. Þetta er miðaldahugsunarháttur, virðulegur forseti.

Ég má til með að endurtaka það sem kemur fram í umsögn Rauða krossins á bls. 8, með leyfi forseta:

„Með því að kveða á um niðurfellingu á þjónustu er varðar grunnvelferð fólks er hætta á að alvarleg vandamál skapist. Umræddir einstaklingar yrðu þar með berskjaldaðir fyrir hvers kyns misneytingu, mansali og ofbeldi. Breytingin hefði þau áhrif á íslenskt samfélag að heimilislausu fólki myndi fjölga, örbirgð og neyð aukast. Samhliða því myndu líkurnar á skaðlegri hegðun og afbrotum aukast. Ljóst er að álag á félagsleg kerfi sveitarfélaga og lögreglu mun aukast, samhliða breytingunni.“

Þessi undantekning sem á að heita á þessu ákvæði ætti að ná til barnafólks, fatlaðs fólks með langvarandi stuðningsþarfir, aðstandenda barna og svo barna — ég held að þar með sé það upptalið. Hér er þó ekki verið að tala um stóran hóp af þeim sem þó teljast vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu — jú afsakið, fatlað fólk og þungaðar konur eru líka í þessari upptalningu. Við erum t.d. að tala um fórnarlömb mansals, ég held að þau séu ekki inni í þessari upptalningu, einstaklinga sem hafa orðið fyrir pyndingum, einstaklinga sem hafa orðið fyrir kynfæralimlestingum, nauðgun eða öðru alvarlegu andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi. Það er ekkert skýrt sem afmarkar það að því fólki verði ekki bara hent rakleiðis á götuna.

Nú vil ég vera með þetta alveg rétt og því ætla ég að leita í þessa 6. gr. þar sem fram kemur að ekki sé heimilt að fella niður réttindi barna, með leyfi forseta:

„Þó er ekki heimilt að fella niður réttindi barna, foreldra eða umsjónarmanna þeirra og annarra heimilismanna sem teljast til ættingja barna, barnshafandi kvenna, alvarlega veikra einstaklinga og fatlaðra einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir.“

Það er bara nákvæmlega eins og mig minnti, virðulegi forseti. Það má henda fórnarlömbum mansals á götuna, þolendum pyndinga, þolendum kynfæralimlestinga, (Forseti hringir.) þolendum nauðgunar eða annars alvarlegs andlegs, líkamlegs eða kynferðislegs ofbeldis.