Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:59]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

„Fundarstjóri, dómarar, andmælendur og góðir gestir.“ Já, virðulegi forseti, svona byrjuðu ræðurnar mínar sem ég hélt í menntaskóla. Ræðurnar sem ég hélt í grunnnáminu mínu í háskóla byrjuðu svona: „Háæruverðuga Grágás, háttvirtur vanhyrndur fundarstjóri.“ Og nú byrja ræðurnar mínar á: „Virðulegur forseti, við erum að brjóta á mannréttindum.“ Þetta er bagaleg þróun og ég trúi ekki að ég sé komin á þann stað í lífinu að ég sé hér búin að halda u.þ.b. 25 ræður á síðustu 24 tímum varðandi lög sem fara mögulega í bága við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu og eru ómannúðleg. En mér sýnist hæstv. dómsmálaráðherra vera alveg sama um það þannig að við þurfum kannski ekkert að fara út í þá sálma jafnvel þó að ég sé búin að þreyta það svolítið mikið.

Bara til að meiri hlutinn, stjórnarþingmenn og meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar, átti sig á alvarleika málsins þá hef ég verið að telja upp mögulegar almennar reglur stjórnsýslulaga sem þetta frumvarp gæti farið í bága við. Í síðustu ræðu minni áðan lét ég staðar numið þegar ég var að reifa álit umboðsmanns Alþingis varðandi styrk til bifreiðakaupa. En nú ætla ég bara að fara beint út í réttaráhrif brota á skýrleikareglu stjórnsýslulaga. Það eru möguleikar á því að þetta lagafrumvarp opni dyr fyrir stjórnvöld til að brjóta á skýrleikareglu stjórnsýsluréttar með því að hafa svona opnar eða víðtækar heimildir til valdbeitingar og sviptingar grunnþjónustu. En áhættan af óljósu efni ákvörðunar er oft lögð á stjórnsýsluna og ef vafi er um efni ákvörðunar þá er hann almennt túlkaður málsaðila í hag. Það er skylda stjórnvalds að vinda ofan af máli og færa það í réttan farveg. Það er bara skylda stjórnvalds. En ég veit ekki hvort Útlendingastofnun sé að fara að standa við þær skyldur. Brot á skýrleikareglu stjórnsýsluréttar getur auðvitað leitt til ógildingar ef annmarki er verulegur og mæli ekki veigamikil sjónarmið gegn þeim annmarka. Svo getur þetta auðvitað bakað hinu opinbera bótaábyrgð. Ef það varðar ívilnandi ákvörðun sem ekki uppfyllir skilyrði skýrleikareglunnar ber að túlka það í samræmi við lagaheimild og innan ramma í þágu hagsmunaaðila máls. Og þessi setning hjá mér meikaði engan sens, virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir því. En haltu þér fast! Nú ætla ég vísa í hæstaréttardóm af því að það bara skýrir allt svo ótrúlega mikið þegar maður vísar í dóma Hæstaréttar eða álit umboðsmanns Alþingis. Það setur allt í svo miklu mannlegra samhengi. Þessi hæstaréttardómur varðar Símann hlutafélag. Ég ætti kannski ekki að vera að nefna einstaka fyrirtæki. Hann varðar tiltekið hlutafélag. Þetta hlutafélag braut gegn skilyrðum ákvörðunar eða þar sem það var hvorki ákveðið né skýrt varðandi ákvörðunina og Samkeppniseftirlitið var látið bera hallann af því og því var ekki sett stjórnvaldssekt á hlutafélagið. Nú velti ég bara fyrir mér, virðulegi forseti, hvort þetta lagafrumvarp sem við erum að ræða hér í dag opni á möguleika til þess að þetta raungerist í málinu okkar við beitingu þessara lagaheimilda og við stjórnvaldsákvarðanir sem eru teknar á grundvelli þessara laga.

Til að víkja nánar að reglum í stjórnsýslurétti þá finnst mér mikilvægasta reglan, mikilvægasta reglan sem sko allir kunna, vera jafnræðisregla stjórnsýsluréttar, en hún skyldar stjórnvöld til þess að gæta að samræmi og jafnræði er ætlað til þess að koma í veg fyrir mismunun. En það þarf ekki á frekari skýringum að halda.

Virðulegi forseti. Ég sé að ég er að renna út á tíma og því bið ég um að verða sett aftur á mælendaskrá til að geta farið nánar út í þá reglu.