Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[02:25]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Á milli ræðna hjá mér er ég að stunda yndislestur í þessari bók. Ég er ekki einu sinni smá að grínast. Þetta er ógeðslega góð bók, sérstaklega þegar maður er að byrja að vinna við löggjafarstarf og er byrjaður að velta fyrir sér atriðum t.d. varðandi lagaskil. Þegar ég var að leysa verkefni þá var ég aldrei að pæla í einhverju eins og lagaskilum og árekstrum milli laga, en nú er ég hluti af löggjafarvaldinu og ég þarf að pæla í svona hlutum þannig að þetta er bara yndislestur fyrir mér.

Í fyrri ræðu minni var ég að tala um árekstra og lagaskil á milli málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga og annarra laga og ég ætla að halda áfram að lesa og síðan útskýra í samhengi við útlendingalögin. Með leyfi forseta, segir:

„Í 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga er rætt um að „strangari málsmeðferðarreglur“ en fram koma í stjórnsýslulögum haldi gildi sínu og í athugasemdum við 2. gr. frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum er rætt um að ákvæði í lögum „sem gera minni kröfur til stjórnvalda“ þoki fyrir ákvæðum stjórnsýslulaga. Í úrskurði Héraðsdóms Vesturlands frá 24. mars 1995, sem staðfestur var af Hæstarétti með vísan til forsendna, sbr. H 1995:1459 (1463), segir m.a. svo: „Samkvæmt 2. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal beita reglum þeirra laga við málsmeðferð fyrir stjórnvaldi, ef ekki eru strangari reglur um málsmeðferðina í sérlögum.“ Að framansögðu athuguðu hlýtur sú spurning að vakna hvaða mælistika sé notuð þegar metið er hvort ákvæði laga gerir „strangari“ eða „vægari“ kröfur en ákvæði stjórnsýslulaga. Af markmiðum laganna og lögskýringargögnum er ljóst, að mælikvarðinn í þessu sambandi er réttarstaða aðila máls.““

Hér ætla ég aðeins að doka við, virðulegi forseti. Hér lagði Hæstiréttur til grundvallar að það skuli beita reglum stjórnsýslulaga við málsmeðferð fyrir stjórnvaldi ef ekki eru strangari reglur um málsmeðferðina í sérlögum. Hvaða mælikvarða notum við þegar kemur að því hvort einhverjar reglur teljist vera strangari eða vægari? Jú, það er réttarstaða aðila máls. Réttarstaða þeirra aðila sem hingað koma í leit að vernd og sækja um alþjóðlega vernd til stjórnvalda hér á Íslandi er ekki sterk. Hún er einfaldlega ekki sterk. Því held ég að það sé skýrt hvaða lögum skal beita og það er auðvitað almennum málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga. Ég veit að ég er búin að ræða þetta svolítið í þaula en mér finnst það vera rosalega mikilvægt og síðan er náttúrlega mjög gott fyrir alla sem sitja hér á löggjafarþingi Íslands, Alþingi Íslendinga, að fá kennslu í stjórnsýslurétti 101, bara til þess að vita um almenn atriði hvað varðar málsmeðferðarreglur, lagaáskilnað, árekstra á milli lagabálka og laga og t.d. reglurnar um lex specialis og lex posterior. Þetta eru hlutir sem ber að hafa í huga við gerð frumvarps og við gerð laga þannig að svona sviðsmynd málist ekki aftur upp og að þingmenn finni sig ekki knúna til að koma upp í pontu og ítreka athugasemdir umsagnaraðila og áhyggjuefni sem hafa komið fram í umsögnum u.þ.b. fjórum, fimm sinnum og hæstv. dómsmálaráðherra hefur ekki enn tekið til greina. En ef það hefur verið nefnt svona ótrúlega oft, t.d. varðandi 6. gr., bara það, þá er frekar ljóst að það er fullt tilefni til þess að taka þetta ákvæði úr frumvarpinu og þá gæti kannski ríkt einhvers konar sátt um það að samþykkja breytingu á lögum um útlendinga. En eins og staðan er núna, ef meiri hlutinn er ekki tilbúinn að koma til móts við okkur, þá erum við ekki tilbúin að koma til móts við þau og þannig er þetta bara. — Ég óska eftir að fara aftur á mælendaskrá.