Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[03:51]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að vera ögn ósammála hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur vegna þess að ég held að einmitt með því að bjóða ráðherrum að koma hér til samtals við okkur á þessum tíma dags sé verið að auðvelda þeim að eiga heimangengt. Ég efast um að það séu einhverjar skuldbindingar á ráðherrakontórnum sem haldi þeim frá þingsalnum á þessum tímapunkti, sem hefur nú einhvern tímann verið notað sem afsökun fyrir því að ráðherrar mæti ekki til umræðu.

Af svörum forseta að dæma þá vita ráðherrarnir að við viljum ræða við þá. Þeir vita að hér stendur þingfundur. En mér finnst óljóst hjá forseta hvort ráðherrarnir hafi eitthvað brugðist við þeim beiðnum sem ég reikna með að skrifstofa forseta hafi sent þeim eftir að við bárum upp beiðni þess efnis. Þetta er nefnilega bara já eða nei spurning sem við höfum beðið um að væri send til þeirra: (Forseti hringir.) Ætlar ráðherra að koma eða ætlar hann ekki að koma? Berast aldrei svör við svoleiðis spurningum frá ráðherrum? Eða situr forseti á einhverjum (Forseti hringir.) slíkum svörun sem hann getur deilt með okkur? Þorir t.d. mennta- og barnamálaráðherra að mæta eða ekki?