Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[03:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þegar síðast var komið við sögu var ég að fara yfir umsagnir umsagnaraðila. Ég er búinn að fara yfir umsagnir nokkurra hingað til, byrjaði á Barnaheill, svo var það landlæknir, Hafnarfjarðarbær, Íslandsdeild Amnesty International, sem var með mjög langa og ítarlega umsögn, Kvenréttindafélag Íslands, Þroskahjálp, Læknafélagið, mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkur og Mannréttindaskrifstofa Íslands. Og svo er ég fara yfir umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands og er kominn í umsögn þeirra um 6. gr., þ. e. brottfall þjónustu. Þar er gerð alvarleg athugasemd við frumvarpið að þessu leyti þar sem ekki virðist hafa verið tekin afstaða til þess hvernig ákvæðið samrýmist mannréttindaskyldum ríkisins á grundvelli stjórnarskrár og alþjóðasamninga. Þetta gæti ekki verið skýrara fyrir fólk sem hefur áhuga á að hlusta. Ekki er ljóst af lestri frumvarpsins hvort hin breytta regla geti leitt til þess að einstaklingar falli utan allrar þjónustu og framfærsluaðstoðar, t.d. á vegum sveitarfélaga. Þetta er mjög mikilvægt atriði hérna af því að undir þetta getur fallið það þegar viðkomandi hefur misst þjónustu samkvæmt þessari grein en telst síðan í neyð, samkvæmt skilgreiningu á neyð útlendinga, og þannig fallið undir reglur um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sem eru þá lágmarksframfærsla sveitarfélaga og greidd húsaleiga t.d. Ég er ekki alveg viss hvort markmiðið hjá stjórnvöldum sé að færa fólk mögulega inn í þann farveg. Það væri kannski ágætt að hafa samráð við sveitarfélögin um hvernig þau sjá þetta gerast, viðmiðin þar á bak við, því að það gæti fjölgað þó nokkuð í rauninni í þessum hópi eftir því sem á líður, sérstaklega í þeim hópi þar sem er ekki hægt að framfylgja brottför af því að það er ekkert land sem getur tekið á móti viðkomandi flóttafólki, t.d. fólki frá Íran. En ef frumvarpið leiðir til slíkrar niðurstöðu er óútskýrt hvernig slíkt gæti samræmst ákvæðum stjórnarskrár, þ.e. 65., 68. og 76. gr.

Í ákvörðun félagsmálanefndar Evrópu gegn Hollandi, 90/2013, var niðurstaðan sú að synjun um lágmarksframfærsluaðstoð við ólöglega innflytjendur væri andstæð 13. gr. félagssáttmála Evrópu enda geti slík synjun leitt til heimilisleysis og skorts á lágmarksnauðsynjum. Ísland er einnig bundið af félagssáttmála Evrópu, sáttmála um félagsleg og efnahagsleg réttindi, það er alltaf þetta langa nafn, sem er svo skemmtilegt. Það er einmitt sérstaklega vísað til hans í lögskýringargögnum að baki 76. gr. stjórnarskrárinnar. Þar er búið að lögfesta þessa alþjóðasamninga sem við erum alltaf að vísa í. Það er nauðsynlegt að vísa í þá af því að þeir skýra síðan í rauninni greinargerðir og forsendur þeirra og dómafordæmi segja okkur mun skýrar og mun nákvæmar hverjar ástæður greinanna í stjórnarskránni okkar eru og hvað þær þýða, til þess að það sé ekki hægt að fara í svona íslenskt lögfræðiútúrsnúningadót sem er rosalega algengt. Það var hluti af því sem var í orkupakkamálinu, þar voru lögfræðingar hræddir við að það yrði hægt að fara í lögfræðilega útúrsnúninga sem virka mun síður á móti evrópskri löggjöf því að þar er í alvörunni unnin aðeins betri undirbúningsvinna og mun viðameiri lagasetning hvað það varðar. Að auki getur algjört brottfall aðstoðar við umsækjendur um alþjóðlega vernd falið í sér, í alvarlegustu tilvikum, brot á 68. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um bann við ómannúðlegri meðferð. Þetta eru alveg rosalega alvarlegar greinar sem þarf að taka tillit til. Ég held að það væri alveg ágætt, ef umræðan lengist þeim mun meira, að fara í sögulegan bakgrunn þessara greina, bara til að rifja upp (Forseti hringir.) ef fólk áttar sig ekki á því án þess. Það er spurning hvort við þurfum að fara það djúpt í málið (Forseti hringir.) í alvörunni eða ekki.

Ég bið forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.