Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:47]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kalla líka eftir afstöðu hæstv. utanríkisráðherra í þessu máli. Það hlýtur að skipta máli hvað hefur verið rætt í ríkisstjórn og hvort hæstv. utanríkisráðherra viðraði áhyggjur sínar yfir því að selja ætti þetta mikilvæga öryggistæki. Ég vil koma með tillögu til að koma til móts við rekstrarvanda Landhelgisgæslunnar og það er að hæstv. dómsmálaráðherra ræði við hæstv. fjármálaráðherra um það hvort hann sem fer með eignarhlutinn í Isavia sé tilbúinn til að falla frá opnunargjaldi sem Landhelgisgæslunni er gert að borga í hvert skipti sem þyrlan þarf að taka á loft frá Reykjavíkurflugvelli utan opnunartíma. Isavia er opinbert hlutafélag í eigu ríkisins, í okkar eigu. Svo mætti jafnvel ræða það að fella niður álögur á olíu sem Landhelgisgæslan þarf að borga ríkinu. Þetta eru hlutir sem hægt er að fara í núna til að tryggja þjóðaröryggi, til að tryggja almannaöryggi. (Forseti hringir.) Hvernig væri að hugsa í lausnum, virðulegi forseti? Við þurfum að koma til móts við Landhelgisgæsluna og standa vörð um SIF og fá hana heim.