Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:51]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það verður að halda því til haga, sem kom fram í umræðunni áðan, að vélin er á leiðinni til Ítalíu í verkefni; hún hefur verið þar í verkefnum í meira en sex mánuði á hverju ári á undanförnum árum. Hún hefur verið til ráðstöfunar í örfáar vikur eða mánuði á hverju ári á Íslandi. Hún er að fara í slíkt verkefni núna. Það koma fram hugmyndir um að fella niður gjöld og fleira af rekstri Gæslunnar og ég fagna öllum slíkum hugmyndum. Það hefur svo sem alltaf legið fyrir að vélin þurfi að vera úti vegna erfiðleika í rekstri hennar og það gæti hjálpað að fella niður gjöld. Það yrði enginn ánægðari en ég ef greitt yrði fyrir auknu rekstrarfjármagni með einum eða öðrum hætti til þess að til þessarar ráðstöfunar þyrfti ekki að koma núna þótt ég telji að hægt sé að leita hagkvæmari reksturs Gæslunnar eins og annarra stofnana til lengri tíma litið. Aftur vil ég bara nefna (Forseti hringir.) að það er mikilvægt að halda sannleikanum til haga hér í ræðustól. Ég hef aldrei, hvorki í ræðu né riti né á fundum, (Forseti hringir.) hvort sem er í þinginu eða á nefndafundum, talað um að vél Isavia geti leyst þessa vél af hólmi. (Forseti hringir.) Við höfum hafið samtal við Isavia um að það komi önnur vél sem geti sinnt verkefnum fyrir báða aðila. (Gripið fram í.)— Nei, (Forseti hringir.) það hefur bara ekkert með þessa vél að gera sem Isavia rekur í dag, bara akkúrat ekki neitt.