153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:27]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Það er alltaf ánægjulegt að koma í pontu í dagsbirtu og ræða mál sem snerta mannréttindi. Við Píratar erum stofnuð í kringum það að verja réttindi mannréttindi. Það má einu gilda hvort hér sé verið að fjalla um lög um umsækjendur um alþjóðlega vernd eða eitthvert annað mál sem snertir mannréttindi. Við Píratar virðum þau réttindi sem hafa áunnist, bæði í alþjóðlegum sáttmálum eins og mannréttindasáttmála Evrópu, nú og í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Við virðum þessi réttindi mikils. Þegar ráðherrar sem varla geta sagt eina setningu sem stenst skoðun reyna að koma hér með frumvarp til laga sem hreinlega valtar yfir áratugabaráttu fyrir mannréttindum þá getum við ekki annað en barist fyrir þeim. Eins og við höfum bent á oft og mörgum sinnum þá er mikilvægt að einhver standi upp og berjist fyrir þessum réttindum því við vitum aldrei hvaða bull og vitleysa vellur út úr ráðherra og hann ákveður að taka einhverjar ákvarðanir sem taka fleiri mannréttindi frá okkur. Við höfum séð hvað gerist í lýðræðislegum löndum þar sem slíkt leyfist. Gott dæmi um það er t.d. Bandaríkin þar sem réttindi kvenna yfir eigin líkama hafa verið takmörkuð, þar sem þingmenn vilja helst gera fleiri mannréttindaávinninga undanfarinna áratuga að engu. Þar eru jafnvel þingmenn sem mismuna fólki, mismuna þingmönnum eftir litarafti og trúarbrögðum varðandi setu í nefndum þingsins.

Frú forseti. Það er stórhættulegt að byrja að gefa eftir mannréttindi. Þvert á móti eigum við á Íslandi, sem hefur verið í fararbroddi jafnréttis og ýmissa mannréttinda, t.d. hinsegin og kynseigin fólks, að vinna að því að búa til frumvörp til laga sem auka þessi réttindi og tryggja þau sérstaklega fyrir jaðarhópa í stað þess að leggja fram einhver hroðvirknisleg frumvörp sem hafa ekki verið hugsuð, sem standast ekki stjórnarskrá, sem standast ekki mannréttindasáttmála og sem draga úr almennum mannréttindum allra.

Frú forseti. Ég er reiður og mun því þurfi að koma aftur í ræðustól, sem kemur forseta á óvart.

(Forseti (ÁLÞ): Algjörlega.) (BLG: Sami brandarinn. Er það ekki?)

(Forseti (ÁLÞ): Nákvæmlega.)

(Gripið fram í: Missti einhver af honum áðan?)