153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:38]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég veit að ég skildi áheyrendur eftir með mikinn syllutrylli hérna áðan. Ég ætla að halda áfram umfjöllun minni um 7. gr. frumvarpsins. Án þess að taka of langan tíma í upprifjun þá kveður þetta ákvæði á um að ákveðnar grundvallarreglur stjórnsýslulaga gildi ekki í málum er varða alþjóðlega vernd, þ.e. rétturinn til endurupptöku málsins ef ný gögn koma fram eða ef forsendur breytast. Ég verð að lesa upp úr umsögn Rauða krossins um þetta ákvæði vegna þess að hún er nokkuð skýr. Það er farið nokkuð vel yfir það að í reynd er ekki heimilt að gera undantekningar frá þessum grundvallarreglum stjórnsýslulaga með þessum hætti sem gerir það pínu kaldhæðnislegt hvernig dómsmálaráðuneytið svaraði umsögn Rauða krossins að þessu leyti og ég mun fara í það hérna á eftir.

En ég ætla að byrja á að lýsa því sem Rauði krossinn segir um þetta, með leyfi forseta:

„Á þeirri forsendu er á því byggt að málsmeðferð sé ekki óvandaðri en stjórnsýslulög mæla fyrir um. Vegna þessarar meginreglu er þess að vænta að sama löggjafarstefna verði tekin upp hér á landi og í nágrannalöndum okkar, þ.e.a.s. að löggjafinn setji ekki sérreglur í lög sem gera vægari kröfur til málsmeðferðar en leiðir af ákvæðum stjórnsýslulaganna nema veigamikil rök mæli með því. […] Þau sérákvæði í lögum sem gera minni kröfur til stjórnvalda þoka aftur á móti fyrir almennu ákvæðum stjórnsýslulaganna. Með minni eða vægari kröfum er í þessu sambandi, er átt við þau ákvæði sem mæla fyrir um málsmeðferð sem veitir aðila“ — borgaranum, já, útlendingar eru borgarar — „minna réttaröryggi en stjórnsýslulögin.“

Ég ætla að láta staðar numið þarna og hoppa aðeins yfir til að þreyta hlustendur ekki of mikið, með leyfi forseta:

„Frumvarpsgreinin er að miklu leyti óbreytt frá því frumvarpi sem var lagt fram á 150. löggjafarþingi en þó er í fyrirliggjandi frumvarpi að finna nýmæli í 1. mgr. Þar hefur nú verið bætt við orðinu „sýnilega“ á undan „auknar líkur““ — verða því: sýnilega auknar líkur — „og orðast 1. mgr. því svo: „Endurtekinni umsókn skal vísað frá. Þó skal taka endurtekna umsókn til meðferðar að nýju ef umsækjandi er staddur hér á landi og nýjar upplýsingar liggja fyrir í máli hans sem leiða til þess að sýnilega auknar líkur eru á því að fallist verði á fyrri umsókn hans skv. 24. gr.“ Í athugasemdum við frumvarpið eins og það var lagt fram á 150. löggjafarþingi sagði eftirfarandi:“ — Fyrir áheyrendur þá erum við á 153. löggjafarþingi. Fyrir þremur útgáfum síðan var þetta ákvæði inni. Með leyfi forseta: „„Lagt er til að endurteknar umsóknir skuli aðeins teknar til meðferðar ef þeim fylgi gögn eða upplýsingar sem eru til þess fallnar að auka svo einhverju nemi líkurnar á því að umsækjanda verði veitt alþjóðleg vernd eða dvalarleyfi hér á landi […]“ Með því að bæta við orðinu „sýnilega“ er að mati Rauða krossins þrengt enn frekar að möguleikum umsækjenda um alþjóðlega vernd að fá ákvarðanir í málum sínum endurskoðaðar á grundvelli nýrra gagna og/eða upplýsinga.“

Það sem er líka áhugavert við þetta ákvæði er að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, sem gerði nokkuð vægar almennar athugasemdir við frumvarpið, en gerði sérstakar athugasemdir við tvö ákvæði, tók þetta upp en gagnrýndi í rauninni ekki einu sinni það að hér væri verið að svipta fólk réttinum til endurupptöku heldur fjallar hún um að jafnvel þó að við værum að tala um endurteknar umsóknir, sem er látið í veðri vaka með þessu ákvæði og í greinargerð, þá uppfylli ákvæðið samt í rauninni ekki þær lágmarkskröfur sem gera verður.

Ég ætla að leyfa mér að lesa aðeins upp úr umsögn Flóttamannastofnunarinnar. Mér sýnist ég nú ekki hafa tíma til þess. Nei, ég næ því nú sennilega ekki fyrr en í næstu ræðu. Það eru sem sagt tvö ákvæði sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gerir helst athugasemdir við. Það er annars vegar sá hái þröskuldur sem er settur fyrir því að endurtekin umsókn sé tekin til skoðunar að nýju og hins vegar ákvæði í 8. gr. sem heimilar Útlendingastofnun að vísa fólki þangað sem stofnuninni dettur í hug. En ég mun koma að því síðar.

Ég ætla að halda áfram aðeins með endurupptökuna og (Forseti hringir.) skilja ykkur eftir með þann syllutrylli. En næst ætla ég að fjalla um svör dómsmálaráðuneytisins við þessari umsögn (Forseti hringir.) Rauða krossins vegna þess að þau eru pínu skondin og skemmtileg að vissu leyti.

Ég óska eftir því við forseta að vera sett aftur á mælendaskrá.