Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:00]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég er ekki búin að finna það í skjalinu sem ég ætlaði að fara að tala um, sem eru svör dómsmálaráðuneytisins við athugasemdum sem gerðar voru. Það er nefnilega ágætisverklag sem hefur verið komið á hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Þegar umsagnir hafa borist um frumvarp sem er sprottið úr ráðuneyti, oftast dómsmálaráðuneytinu, þá óskar nefndin eftir því við ráðuneytið að það bregðist við þeim umsögnum sem hafa borist. Dómsmálaráðuneytið lét það nú vera að bregðast við öllum umsögnum en brást þó við einhverjum. Ég mæli með lestri á áliti ráðuneytisins á umsögn Rauða krossins þar sem mér finnst ég skynja pirringinn í gegn. Og þó að þetta sé að mörgu leyti átakanlegur lestur þá er hann að sumu leyti líka svolítið skondinn.

Ég ætla að lesa upp úr þessu svari dómsmálaráðuneytisins við athugasemdum Rauða krossins við 7. gr. frumvarpsins sem sviptir fólk réttinum til þess að fá mál sitt endurupptekið, með leyfi forseta:

„RKÍ gerir athugasemd við 7. gr. frumvarpsins og vísar m.a. til þess að „stjórnsýslulög kveða á um lágmarkskröfur til stjórnsýslunnar og að ákvæði í sérlögum geta ekki gengið framar þeim réttindum sem borgurum eru tryggð með ákvæðum laganna“. Ráðuneytið áréttar að stjórnsýslulög nr. 37/1993 hafa ekki ígildi stjórnskipunarlaga sem almenn lög geta ekki breytt. Löggjafanum er því heimilt að ákveða að tiltekin málsmeðferð lúti vægari skilyrðum en stjórnsýslulög mæla fyrir um, enda sé skýrt mælt fyrir um það í lögum. Vegna tilvísunar RKÍ til 2. gr. stjórnsýslulaga bendir ráðuneytið á að með ákvæðinu var lögfest sú regla að sérákvæði í eldri lögum sem gerðu minni kröfur til stjórnvalda myndu þoka fyrir hinum almennu ákvæðum stjórnsýslulaga. Raunar felst það í lagasetningarvaldi löggjafans að löggjafarþing getur ekki með lagasetningu bundið síðari löggjafarþing um ókomna tíð. Í þessu samhengi áréttar ráðuneytið að í gildandi lögum um útlendinga, sem sett voru eftir gildistöku stjórnsýslulaga, eru ákvæði sem víkja frá málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga um andmælarétt, birtingu ákvörðunar og rökstuðning, sbr. 2. mgr. 25. gr., 3. mgr. 43. gr. og 6. mgr. 77. gr.“

Nú ætla ég að segja þetta á mannamáli. Ráðuneytið segir: Stjórnsýslulögin, sem eru almennar grundvallarreglur um réttindi borgaranna í samskiptum við stjórnvöld, eru ekki stjórnarskráin, þau hafa ekki stjórnarskrárígildi. Þetta er auðvitað hjákátlegt að tvennu leyti, annars vegar er lítið gert úr grundvallarreglum stjórnsýsluréttar sem margar hverjar eru taldar hafa gildi umfram orðalag stjórnsýslulaganna vegna þess að þær eru óskráðar grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins. Það er eitt sem gerir þetta pínu skondið. Hitt sem gerir þetta skondið er að ekki er að sjá að dómsmálaráðuneytið sé yfir höfuð mjög upptekið af stjórnarskránni við samningu þessa frumvarps. En það sem gerir þetta svar skemmtilegast eða grátbroslegast, að mínu mati, eru dæmin sem ráðuneytið tekur um lagaákvæði sem víkja frá ákvæðum stjórnsýslulaga og minnka rétt borgaranna í samskiptum við stjórnvöld. Dæmin sem dómsmálaráðuneytið nefnir eru öll í lögum um útlendinga. Það sem ráðuneytið er sem sagt að segja er: Jú, við megum alveg skerða réttindi útlendinga, við höfum gert það áður. Það er það sem það er í raun að segja. Það gerir þetta skondið en ekki skondnara en svo að við erum hér á Alþingi Íslendinga að fara að setja landslög sem eru byggð á þessum grunni og það er auðvitað grátlegt. Það er eiginlega ekki einu sinni grátbroslegt. Eins og ég sagði áðan gerði Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna líka athugasemdir við þetta ákvæði og athugasemdir sem voru mjög skýrar og lögðu til tilteknar breytingar en ráðuneytinu fannst ekki ástæða til að bregðast við þeim þrátt fyrir að þar væri einmitt verið að tala um það sama, lágmarkskröfur, grundvallarreglur um réttindi borgaranna í samskiptum við stjórnvöld. — Ég óska eftir því, forseti, að verða sett aftur á mælendaskrá.