Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:06]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að hafa virðulegan forseta með okkur í dagsbirtu að fjalla um þetta mikilvæga mál. Mig langar að upplýsa virðulegan forseta um það að í síðustu ræðu minni var ég að fjalla um samninginn um réttarstöðu flóttamanna sem í daglegu tali er kallaður flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna. Ísland skrifaði undir þann samning 1955 og hann gekk í gildi á Íslandi 1. mars 1956. Í honum er m.a. fjallað um það hvernig lönd heimsins þurfa að vinna saman til þess að takast á við flóttamannavandamálið, eins og það er kallað í þessum samningi.

Í 1. gr. samningsins er skilgreint hvað það er að vera flóttamaður. Það er nú dálítið skrautleg skilgreining vegna þess að hún horfir í upphafi mikið til þess hverjir hafa verið flóttamenn fyrir hin ýmsu stríð sem geisuðu í Evrópu snemma á síðustu öld. Ef ég teldi dagsetningarnar upp gæti virðulegur forseti kannski frætt mig um hvaða átök þetta hafi verið, enda er hann mun sögufróðari en ég. En þetta leiddi allt til þess að Alþjóðaflóttamálastofnunin var stofnuð sem í dag kallast Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem skammstöfuð er UNHCR sem er á ensku, með leyfi forseta: The United Nations High Commissioner for Refugees.

Í 2. málslið í 1. gr. samningsins er sú skilgreining á flóttamönnum sem við notum síðan í okkar lögum um útlendinga. En skýring orðsins flóttamaður er, með leyfi forseta:

„[Aðili sem] er utan heimalands síns vegna atburða, sem gerðust fyrir 1. janúar 1951,“ — þarna er verið að tengja þetta við það hvenær þetta er stofnað, en sama gildir um fólk eftir 1951 í öðrum köflum hér, ég ætla ekki að fara að lesa alla þá lagaflækju upp — „og af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana, og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands; eða þann, sem er ríkisfangslaus, og er utan þess lands, þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur, vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, hverfa aftur þangað.“

Það er eins gott að passa að anda hér inni á milli. Þarna er skilgreiningin á flóttamanni. En eins og ég sagði í síðustu ræðu var árið 1967 bætt við nánari skilgreiningu á því sem við köllum alþjóðlega vernd en hún er í raun 6. liður 1. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þó skal þessi töluliður ekki taka til flóttamanns, sem fellur undir A-lið 1 í þessari grein, ef hann getur borið fyrir sig ríkar ástæður til þess að neita að hverfa aftur til landsins, sem hann áður hafði fast aðsetur í, vegna fyrri ofsókna.“

Fyrri hlutinn af þessu fjallaði um fólk sem gæti komist til baka en þarna er talað um ótta við að komast til baka. Það er það sem við köllum oft alþjóðlega vernd.

Virðulegi forseti. Tími minn er á þrotum og óska ég eftir að komast aftur á mælendaskrá.