Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:27]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Enn og aftur vil ég þakka fyrir að fá að fjalla um þessi mál hér í björtu. Mig langar að halda áfram yfirferð minni um flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna sem er undir í þessu frumvarpi. 2. og 3. gr. eru ágætisgreinar en í 2. gr., sem er um almennar skuldbindingar, segir, með leyfi forseta:

„Sérhver flóttamaður hefur skyldum að gegna gagnvart landi því, sem hann dvelur í, en þær eru fyrst og fremst fólgnar í því, að hann hagi sér samkvæmt lögum þess og reglugerðum, svo og þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru til þess að halda uppi allsherjarreglu.“

Þetta speglast ágætlega við það sem við vorum að tala um áðan, um það að lögin og stjórnarskráin og annað nái yfir fólk á flótta, rétt eins og yfir ferðamennina sem eru að keyra á götunum hér. Flóttamaðurinn þarf að fara eftir því rétt eins og lögin þurfa líka að gilda um hann.

Í 3. gr., þar sem fjallað er um jafnrétti, segir, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin skulu beita ákvæðum þessa samnings um alla flóttamenn, án manngreinarálits vegna kynþátta, trúarbragða eða ættlands.“

Með öðrum orðum þá skiptir ekki máli frá hvaða landi viðkomandi kemur, af hvaða kynþætti hann er eða hvað annað sem greinir manneskjur að, við skulum ávallt túlka hlutina á sama máta.

Ég ætla að hoppa aðeins áfram, ekki vil ég að hæstv. forseti fari að saka mig um að vera að tefja umræðuna. Í 7. gr. er fjallað um undanþágur frá gagnkvæmni en þar stendur í 1. mgr., með leyfi forseta:

„Aðildarríki skal veita flóttamönnum sömu aðbúð og það veitir útlendingum almennt, nema þegar samningur þessi hefur að geyma hagkvæmari ákvæði.“

Við eigum með öðrum orðum að veita flóttamönnunum sams konar aðbúð og við veitum öðrum útlendingum — það er alltaf gaman að lesa svona gamla texta og spá í hvað orðið aðbúð þýðir, það er allt í lagi.

Við höldum áfram lestrinum og þá hefst einn aðalkaflinn þegar kemur að þessu frumvarpi, en þar er fjallað um réttarstöðu. Það er II. kafli þessa samnings. Mér sýnist ég komast í gegnum eina grein í viðbót, virðulegi forseti, og ég veit að forseti hefur örugglega gaman af henni. Það er 12. gr., en hún fjallar um persónulegan rétt, og 2. mgr. hennar hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Aðildarríki skal virða réttindi þau, sem flóttamaður hefur áður áunnið sér og byggjast á persónulegum rétti, einkum og sér í lagi réttindi, sem tengd eru hjúskap, með því skilyrði, að ef nauðsyn krefur, sé fullnægt formskilyrðum, sem lög þess ríkis krefjast, enda sé um þau réttindi að ræða, sem hefðu verið viðurkennd af því ríki, ef hann hefði ekki orðið flóttamaður.“

Þetta er flókinn lagatexti en fjallar aðallega um það að ef viðkomandi hefur gifst eða hafið hjúskap þá eigi að virða það, þó að um flóttamenn sé að ræða, til jafns við aðra, þ.e. að þau réttindi séu viðurkennd. Þarna lendum við einmitt á þessu með fjölskyldusameininguna og annað sem ég verð greinilega að koma inn á í næstu ræðu. — Ég óska eftir því við virðulegan forseta að hann bæti mér á mælendaskrá.