Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:48]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég er að fara yfir 7. gr. frumvarpsins varðandi svokallaðar endurteknar umsóknir, sem væri svo sem ákvæði sem kæmi ekki að sök ef því væri ætlað að fjalla um endurteknar umsóknir en því er ekki ætlað að gera það. Því er m.a. ætlað að gera það en það látið fljóta með að svipta fólk réttinum til þess að fá mál sitt endurskoðað vegna nýrra gagna eða nýrra forsendna, breyttra forsendna.

Ég ætla að lesa hér upp svar dómsmálaráðuneytisins við þeirri athugasemd Flóttamannastofnunarinnar við þetta ákvæði að til að réttlætanlegt sé að líta á umsókn sem endurtekna umsókn þurfi hún í fyrra skiptið á einhverjum tímapunkti að hafa verið skoðuð efnislega. Þetta eyðileggur auðvitað ákvæðið fyrir frumvarpshöfundum, eða hæstv. dómsmálaráðherra og vinum hans, vegna þess að ætlunin með þessu ákvæði er einmitt að, hvað eigum við að segja, skerða réttindi fólks sem fengið hefur vernd í öðru ríki og auka rétt stjórnvalda til að finna hinar og þessar leiðir til þess að vísa þessu fólki frá án þess að skoða umsóknina, þótt önnur ákvæði í lögunum séu skýr um að það eigi að skoða hana. Alla vega segir Flóttamannastofnun þetta, þetta má gilda þegar umsókn hefur verið skoðuð efnislega. Þessu svarar dómsmálaráðuneytið með svohljóðandi hætti, með leyfi forseta:

„Þá áréttar ráðuneytið að þau mál sem falla undir 36. gr. laga um útlendinga, þ.á.m. verndarmál, hljóta almennt ítarlegri skoðun á Íslandi en í ríkjum Evrópusambandsins á grundvelli 2. mgr. 36. gr. þar sem kveðið er á um taka skuli umsókn til efnismeðferðar“ — þrátt fyrir að hann hafi fengið vernd í öðru ríki — „ef útlendingur hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái vernd eða ef sérstakar ástæður mæla annars með því.“

Þetta finnst mér sérdeilis skemmtilegt orðalag hjá ráðuneytinu vegna þess að það er þetta sem átt er við þegar talað er um íslenskar sérreglur, sem hafa svona ægilega mikið aðdráttarafl að mati margra. Þar sem verndarmál eru stærra hlutfall umsókna hér á landi en í mörgum öðrum löndum, þótt aðrar augljósar skýringar séu á því, þá hafa frumvarpshöfundar, hæstv. dómsmálaráðherra og hans félagar, komist að þeirri niðurstöðu að það hljóti að vera út af þessu sérákvæði. Það sem er svo skondið við það og kaldhæðnislegt er það að jú, þetta ákvæði er sérstakt. Það er að mér vitandi ekki til í löggjöf annarra ríkja, þ.e. önnur Evrópuríki eru með ákvæði sem segir: Ef þú hefur fengið vernd í öðru landi þá bara átt þú að vera þar. Samt sem áður eru önnur ríki sem eru ekki einu sinni með svona ákvæði, sem eru eingöngu með bann við endursendingum þangað sem líf og frelsi er í hættu, líka að skoða þessi mál og þau eru ekki að endursenda fólk t.d. til Grikklands. Besta dæmið er augljóslega Þýskaland þar sem nýlega féll dómur þess efnis að það væri, og það var rammað inn með einhverjum hætti, búið að reikna þetta út og að niðurstaðan væri sú að 90% umsókna, 90% þeirra einstaklinga sem sækja um vernd í Þýskalandi eftir að hafa fengið vernd í Grikklandi ætti ekki að senda til Grikklands — 90%. Við erum að senda örugglega a.m.k. 90% þeirra sem hafa fengið vernd í Grikklandi aftur til baka þangað þannig að þrátt fyrir þetta frábæra opna ákvæði sem við erum með þá erum við að beita því strangar en önnur ríki sem eru ekki einu sinni með þetta ákvæði.

Þess vegna finnst mér þetta svar dómsmálaráðuneytisins svo áhugavert, af því að þetta er einfaldlega ekki rétt. Það er ekki rétt að verndarmál hljóti almennt ítarlegri skoðun á Íslandi en í ríkjum Evrópusambandsins út af þessu ákvæði. Við erum með þetta ákvæði en í framkvæmd er því nánast beitt eins og það sé ekki til og allt gert af hálfu hæstv. dómsmálaráðherra, og núna félaga hans í meiri hlutanum á þingi, til þess að eyðileggja þetta ákvæði og tryggja að enginn einstaklingur sem hefur fengið vernd í Grikklandi, sama hversu mikil neyð hans er, fái að vera hér á landi.

Það er megintilgangurinn með þessu ákvæði, ekki sá að auka einhverja skilvirkni eða straumlínulaga kerfið eða sníða af einhverja vankanta. Nei, þessu frumvarpi er ætlað að fækka þeim einstaklingum sem fá hér vernd, ekki þeim einstaklingum sem leita hingað og við þurfum að afgreiða umsóknirnar þeirra. Nei, það er allt í lagi, við erum til í að sóa eins miklum peningum og við getum í það og það skiptir engu máli hversu langan tíma það tekur. Við ætlum að eyðileggja alla tímafresti líka sem setja pressu á stjórnvald að drífa sig í því. Það er allt í lagi að það taki langan tíma og kosti mikla peninga (Forseti hringir.) svo fremi sem þetta fólk fær að endingu ekki að vera hér á landi. Út á það gengur þetta frumvarp, frú forseti.