Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:59]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég var að tala um 2. gr. frumvarpsins og vísaði í umsögn Amnesty International hvað það varðar. Amnesty er vissulega ekki eini umsagnaraðilinn sem gagnrýnir þetta lagaákvæði heldur er bara fullt af öðrum umsagnaraðilum sem gagnrýna 2. gr. Mig langar að lesa orðrétt upp úr umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands þar sem segir, með leyfi forseta:

„MHÍ gerir tvenns konar almennar athugasemdir við framsetningu frumvarpsins auk þess sem gerðar eru athugasemdir við 2. gr. frumvarpsins.“

Ég ætla bara að hoppa yfir þetta og koma inn á það seinna, af því að ég er náttúrlega búin að vísa í það, og fara beint í aðrar greinar frumvarpsins þar sem segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að skv. 7. gr. laganna sæti ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á efnismeðferð á grundvelli 36. gr. sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála nema umsækjandi óski þess sérstaklega að kæra ekki og skuli greinargerð vegna kæru berast kærunefnd innan 14 daga frá birtingu ákvörðunar.

MHÍ vekur athygli á því að forsenda þess að umsækjandi geti skilað greinargerð vegna kæru til kærunefndar útlendingamála er að viðkomandi hafi öll gögn málsins. Fram hefur komið að Útlendingastofnun áskilur sér a.m.k. 10 daga frest til að afhenda öll gögn. Tímafrekt getur einnig verið að afla gagna annars staðar frá. Það gefur umsækjanda því afar skamman frest til að vinna greinargerð sína, svo skamman að illmögulegt getur verið fyrir umsækjanda að gera fullnægjandi greinargerð og í sumum tilfellum ómögulegt vegna skorts á gögnum. Svo skammur frestur getur að mati MHÍ brotið gegn réttinum til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns sem m.a. er tryggður í 13. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög 62/1994. Hér er því um umtalsverða skerðingu á réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd að ræða. MHÍ hvetur Alþingi til að endurskoða þetta ákvæði til að tryggja að grundvallarmannréttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd séu tryggð.“

Virðulegi forseti. Nú er ég búin að lesa tvær athugasemdir við 2. gr. sem koma frá umsagnaraðilum sem ég held að sé alveg öruggt að kalla sérfróða í þessum málaflokki. Og hér stendur orðrétt: „MHÍ hvetur Alþingi til að endurskoða þetta ákvæði til að tryggja að grundvallarmannréttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd séu tryggð.“

Ég ætla bara að segja þetta, virðulegur forseti: Hver höldum við eiginlega að við séum að vera að leiða svona athugasemdir hjá okkur? Það er ástæða fyrir því að við biðjum um umsagnir frá sérfróðum aðilum í þessum málaflokki og þeim sem hafa meiri kunnáttu á þessu sviði en við og hæstv. dómsmálaráðherra og meira að segja meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Okkur ber skylda til þess að taka þetta alla vega til efnislegrar umfjöllunar þegar málið fer aftur inn í nefnd á milli 2. og 3. umr. og ætla ég að hvetja hv. formann allsherjar- og menntamálanefndar til að setja það á dagskrá nefndarinnar að fara yfir allar þessar umsagnir, hverja fyrir sig, og þá sérstaklega þær athugasemdir sem beinast að 2. gr. frumvarpsins af því að það erum ekki bara við sem erum að gera athugasemdir og lýsa yfir áhyggjum þegar kemur að þessum ákvæðum heldur líka sérfræðingar í þessum málaflokki. Ef þið hlustið ekki á okkur, stjórnarandstöðuna, allt í góðu, ég meina ekki allt í góðu en svona er þetta bara, en þá hvet ég samt hv. allsherjar- og menntamálanefnd eindregið til þess að taka til greina athugasemdir og ábendingar sem fram hafa komið af hálfu sérfræðinga.