Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:04]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég ætla að gera smáhlé á umfjöllun minni um 7. gr. frumvarpsins. Ég hef ekki alveg lokið mér af en ég ætla að nota tækifærið og fara yfir 8. gr. Hún er dálítið umfangsmikil þar sem hún er í þremur liðum sem hafa hver um sig sínar afleiðingar. A-liður snýst reyndar kannski fyrst og fremst um það að brjóta eina málsgrein í núgildandi lögum upp í tvær. B-liður 8. gr. snýst um það að veita Útlendingastofnun heimild til að senda fólk þangað sem þeim dettur í hug, hvort sem fólk hefur heimild til komu og dvalar þar eða ekki. C-liður er sá liður sem líklega mun taka lengstan tíma að fara yfir vegna þess að í c-lið 8. gr. sjá lögfræðingar sem hafa starfað í þessum málaflokki um nokkurt skeið upptalningu á þeim málum sem Útlendingastofnun hefur tapað fyrir kærunefnd útlendingamála eða kærunefnd útlendingamála hefur tapað fyrir dómstóli þar sem athafnir umsækjanda eru metnar sem tafir á málsmeðferð og ekki hefur verið fallist á að þær teljist vera tafir á málsmeðferð.

Ég ætla byrja á a-liðnum, svo að ég geti nú afgreitt hann. —Afsakið, ég þarf að byrja á að lesa fyrri hluta ákvæðisins af því að annars verður þetta svolítið samhengislaust. Í 8. gr. frumvarpsins er verið að breyta 36. gr. laganna. 36. gr. laga um útlendinga fjallar um heimildir Útlendingastofnunar til þess að vísa málum frá og ekki skoða þau efnislega. Það sem er kannski áhugavert við þá grein er að meginreglan er sú að umsókn skuli tekin til efnismeðferðar. Ég ætla að byrja á að lesa upp hvernig ákvæðið er í dag, með leyfi forseta:

„Umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skal tekin til efnismeðferðar nema: a. umsækjandi hafi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna,

b. heimilt sé að krefja annað norrænt ríki um að taka við umsækjanda samkvæmt reglum norræna vegabréfaeftirlitssamningsins eða samkvæmt samningi milli Íslands og Færeyja um endursendingu útlendinga sem hingað koma með ferjunni Norrænu,

c. heimilt sé að krefja annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda.“ — Ákvæðið er svolítið skorinort í dag þó að það eigi að flækja það dálítið mikið.

Á mannamáli: Dublin. C-liður á sem sagt við um heimild stjórnvalda til þess að vísa frá umsókn ef leitt er í ljós að annað aðildarríki Dyflinnarreglugerðarinnar ber ábyrgð á umsókn og meðferð umsóknarinnar, efnismeðferð umsóknarinnar.

Í 2. mgr. 36. gr. eins og hún er í dag segir, með leyfi forseta:

„Ef svo stendur á sem greinir í 1. mgr.“ — , þ.e. ef hægt er að vísa málinu frá, það er heimilt að vísa málinu frá — „skal þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæla annars með því.“ — punktur — „Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs“ — þetta er í núgildandi lögum — „skal taka hana til efnismeðferðar.“

Svo segir hérna, með leyfi forseta: „Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar.“

Þá er fimm mínútna skammturinn minn búinn í bili en ég mun halda áfram með 8. gr. í næstu ræðu minni og óska eftir því, forseti, að verða sett aftur á mælendaskrá.