Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:20]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Við höfum hér verið að fjalla um hvernig þetta frumvarp stenst eflaust ekki stjórnarskrá og mér hefur fundist mjög mikilvægt að fara mjög ítarlega yfir það. Í því sambandi finnst mér líka mjög mikilvægt að fara yfir athugasemdir Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, sér í lagi þá hvernig þetta frumvarp stenst ekki skuldbindingar okkar gagnvart flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Það er merkilegt við þetta mál að allsherjar- og menntamálanefnd lauk umfjöllun sinni um málið án þess að þýðing á þessari umsögn lægi fyrir. Hins vegar er mjög mikilvægt að þingmenn viti hvað Flóttamannastofnunin hefur um þetta mál að segja og um þær ítarlegu athugasemdir sem Flóttamannastofnun hefur komið með varðandi málið. Tel ég því rétt að lesa hér aðeins upp úr löggiltri þýðingu á umsögn Flóttamannastofnunarinnar. Á bls. 2 kemur fram, með leyfi forseta:

„Í ljósi þess að hælisleitendum á Íslandi fjölgaði talsvert árið 2022 kann Flóttamannastofnunin vel að meta víðtæka viðleitni íslenskra stjórnvalda til að stækka við móttökustofnanir sínar til að koma til móts við þarfir þeirra sem eru nýkomnir til landsins og til að hafa í heiðri grundvallarréttindi til að leita verndar og njóta verndar á Íslandi.

Flóttamannastofnunin gengst líka við því að tilgangur umbóta á lögum um útlendinga er sá að koma til móts við nýtilkomna þróun og gera viss atriði varðandi ákvæðin um alþjóðlega vernd skýrari. Eitt af meginmarkmiðum tillögunnar er að „sporna gegn frekari flutningum“ þar sem fjöldi þeirra hælisleitenda á Íslandi sem hafa annaðhvort sótt um vernd annars staðar eða hefur verið veitt vernd annars staðar hefur aukist.

Flóttamannastofnunin lagði fram athugasemdir við fyrra uppkast tillögunnar þann 16. ágúst árið 2019. Þær athugasemdir sem hér eru lagðar fram eru viðbót við fyrri athugasemdir og þær ber að lesa í samhengi við athugasemdirnar sem á undan komu.“

Það er mikilvægt að hafa þetta í huga vegna þess að eins oft og búið er að segja okkur að þetta mál hafi tekið svo miklum breytingum þá er aðallega um nokkrar viðbætur að ræða en ekki svo mikið um jákvæðar breytingar.

Snúum okkur nú að endurteknum umsóknum um alþjóðlega vernd sem ég hef lítið fjallað um í mínum ræðum en hefur svo sem verið ítarlega farið yfir af hálfu annarra hv. þingmanna Pírata, þ.e. um hvernig er í raun verið að taka mjög mikilvægan rétt samkvæmt stjórnsýslulögum af flóttamönnum. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Samkvæmt tillögunni er nauðsynlegt að samræma íslenskar reglur og verklag við það sem gengur og gerist í öðrum Evrópulöndum hvað varðar endurteknar umsóknir um alþjóðlega vernd og gera þær skilvirkari. Slíkum umsóknum verður vísað frá nema umsækjandinn sé staddur á Íslandi og nýjar upplýsingar í málinu séu tiltækar sem leiði til þess að sýnilega auknar líkur séu á því að endurtekna umsóknin verði samþykkt.

Að mati Flóttamannastofnunarinnar er aðeins réttlætanlegt að meðhöndla umsókn sem endurtekna umsókn ef fyrri umsóknin var tekin til efnislegrar meðferðar, þar sem farið var eftir öllum tilheyrandi réttarfarsreglum. Margar gildar ástæður geta verið fyrir því að umsækjandi leggur fram endurtekna umsókn sem þeir sem ákvörðunina taka þurfa að meta áður en umsókninni er vísað frá. Meðal annars getur verið að breytingar hafi orðið á aðstæðum í upprunalandinu, að annmarkar eða ágallar hafi verið á fyrri málsmeðferð sem komu í veg fyrir fullnægjandi skoðun, áföll eða aðrar hömlur sem komu í veg fyrir ítarlegan vitnisburð frá umsækjandanum í fyrri málsmeðferð eða þá að umsækjandanum hafi áskotnast fleiri sönnunargögn.“

Þetta er það sem við höfum verið að vísa til, virðulegi forseti, að Útlendingastofnun gerir í raun umsækjendum um alþjóðlega vernd mjög erfitt fyrir að skila inn gögnum og leitar þeirra einmitt ekki sjálf. Því er nauðsynlegt oft og tíðum að senda inn beiðni um endurupptöku, vegna þess að stjórnvöld hafa ekki unnið vinnuna sína samkvæmt lögum.

En áfram heldur í umsögn Flóttamannastofnunar, með leyfi forseta:

„Í grundvallaratriðum er Flóttamannastofnun samþykk því að farið sé yfir það fyrir fram í tilfelli endurtekinna umsókna hvort ný atriði séu til staðar eða hafi verið sett fram sem kalli eftir efnislegri meðferð á umsókninni. Slík nálgun gerir það mögulegt að koma fljótlega auga á það þegar endurteknar umsóknir uppfylla ekki þessi skilyrði. Flóttamannastofnunin hefur þó áhyggjur af þeirri hækkun á þröskuldi sönnunargagna sem lögð er til fyrir endurteknar umsóknir. Að mati Flóttamannastofnunar ætti ekki að meta það í fyrirframskoðun hvort slík atriði feli í sér „verulega auknar líkur“ á því að umsækjandinn hljóti alþjóðlega vernd. Taka ber umsókn til nýrrar efnislegrar meðferðar til að ákvarða hvort umsækjandinn eigi rétt á alþjóðlegri vernd.“

Þetta er einmitt mjög mikilvægt atriði, virðulegi forseti, sem ég held að við verðum að fara betur yfir í annarri ræðu og óska ég því eftir því að verða sett aftur á mælendaskrá.