Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:36]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég er að fara hér yfir flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna en síðast var ég að tala um brottvísanir og endursendingar. Ólíkt öðrum alþjóðasamningum sem ég hef farið yfir þá ætla ég einnig að taka hér fyrir tvær greinar úr VI. kafla þessa sáttmála sem fjallar um framkvæmdar- og bráðabirgðaákvæði, en það er sérstaklega framkvæmdaratriðið sem ég ætla að fara yfir. Þannig er að 35. gr. þessa samnings fjallar um samvinnu stjórnvalda einstakra ríkja við Sameinuðu þjóðirnar. Fyrir þá sem hafa verið að fylgjast með þá var einmitt hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir að byrja að fara yfir umsögn Flóttamannastofnunarinnar og það er mikilvægt að átta sig á því af hverju það skiptir máli að við hlustum á Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, sem er reyndar í lögunum kölluð Skrifstofa erindreka Sameinuðu þjóðanna í flóttamannamálum. Það er eiginlega bein þýðing á enska heitinu, með leyfi forseta „high commissioner for refugees“, erindreki flóttamanna. Í 35. gr. er farið í þessa samvinnu og mig langar að fara í gegnum þær tvær málsgreinar sem eru í þeirri grein, með leyfi forseta:

„1. Samningsríkin skuldbinda sig til þess að hafa samvinnu við Skrifstofu erindreka Sameinuðu þjóðanna í flóttamannamálum, eða hverja þá aðra stofnun Sameinuðu þjóðanna, sem koma kann í hennar stað, um framkvæmd ætlunarverka hennar og skulu þau sér í lagi auðvelda henni að fullnægja skyldu sinni til að hafa eftirlit með beitingu ákvæða þessa samnings.“

Þarna eru lagðar skyldur á ríkisstjórnina og íslenska ríkið að gera Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna kleift að fylgjast með því hvort íslenska ríkið sé að fara eftir þessum samningi eða ekki. Og það er ekki bara að fylgjast með eftirlitinu á framkvæmdinni heldur segir í 2. mgr., með leyfi forseta:

„Í því skyni að gera Skrifstofu erindrekans, eða hverri þeirri annarri stofnun Sameinuðu þjóðanna, er koma kann í hennar stað, mögulegt að gefa skýrslur til hlutaðeigandi aðila hjá Sameinuðu þjóðunum, skuldbinda aðildarríkin sig til þess að láta þeim í té viðeigandi formi upplýsingar og hagskýrslur, sem um er beðið og varða: a) stöðu flóttamanna, b) framkvæmd samnings þessa og c) lög, reglugerðir og úrskurði, sem í gildi eru eða kunna síðar að ganga í gildi, varðandi flóttamenn.“

Frú forseti. Þarna er sagt að við eigum t.d. áður en lög taka gildi, það þýðir frumvarp, að láta þau ganga til Flóttamannastofnunarinnar svo hún geti komið með athugasemdir. Þetta er ítrekað í 36. gr., sem er um upplýsingar um landslög, en í henni segir, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin skulu senda framkvæmdarstjóra Sameinuðu þjóðanna lög þau og reglugerðir, sem þau kunna að setja til þess að tryggja framkvæmd þessa samnings.“

Ég er akkúrat passlega búinn með þetta en það þýðir ekki að ég hafi ekki meira að segja þannig vinsamlegast bætið mér á mælendaskrá, frú forseti.