Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:41]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég hef verulegar áhyggjur af ákveðnu ákvæði í þessu frumvarpi, eða reyndar mörgum en alveg sérstaklega gagnvart því að senda eigi flóttafólk til þriðju landa sem eru bara einhver lönd sem Útlendingastofnun finnst sanngjarnt og eðlilegt að flóttamaður fari til. Mig langar aðeins að fara í umsögn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um það og drepa niður í 16. mgr. í umsögninni þar sem stendur:

„Hvað varðar það sjónarmið sem lagt er fram að það verði „sanngjarnt og eðlilegt“ fyrir umsækjandann að búa í þriðja landinu, hefur Flóttamannastofnunin stöðugt verið að hvetja til þess að merkingarbært samband eða tenging verði til staðar sem geri það eðlilegt og sjálfbært fyrir manneskju að sækja um hæli í öðru ríki. Sé lengd og tegund hverrar dvalar tekin með í reikninginn sem og þær tengingar sem byggjast á fjölskylduböndum eða öðrum nánum tengslum — þar á meðal þegar áunnin réttindi í ríkinu eins og fyrri búseta eða langvinnar heimsóknir, og bönd sem hafa með tungumál, menningu eða eitthvað svipað að gera — eykur það líkurnar á því að flutningarnir verði til langframa, bæði frá sjónarhóli einstaklingsins og þriðja landsins. Samband af því tagi myndi ennfremur draga úr hættunni á óvenjulegum flutningum áfram til annars lands, draga úr hættunni á „sporbrautar“- kringumstæðum og ýta undir alþjóðlega samvinnu og skiptingu skylduverka í stað þess að ríki velti byrðinni sín á milli.“

En það er einmitt það sem íslenska ríkið er að reyna að gera, það er að reyna að velta byrðinni, eins og Flóttamannastofnunin orðar þetta, yfir á einhver önnur lönd. Með því að setja inn þetta ákvæði um fyrsta griðland, þar sem Útlendingastofnun hefur nokkurn veginn frjálsar hendur með að ákveða hvar henni finnst sanngjarnt og eðlilegt að umsækjandi um alþjóðlega vernd komi sér fyrir og fari frá Íslandi og eitthvert annað, þá erum við að neita að gangast við þeirri ábyrgð sem okkur ber. Við erum með fullkomlega óraunhæfar fyrirætlanir um að einhvern veginn sé hægt að vísa fólki til einhverra landa. Það er einmitt þessi gildra sem við höfum stöðugt verið að vísa til að verið sé að setja umsækjendur um alþjóðlega vernd í, sem er að Útlendingastofnun getur ákveðið: Heyrðu, nei, okkur finnst frekar að þú eigir að vera einhvers staðar annars staðar og við ætlum bara að ákveða það. Þú færð ekki efnismeðferð, þú ættir frekar að fara til Chile af því að við vitum að systir þín býr þar, burt séð frá því hvort þú hefur nokkru sinni búið þar eða hefur nokkurn rétt til dvalar þar eða hvað sem það er. Og þegar í ljós kemur að þú hefur ekki dvalarleyfi þarna og ekki er hægt að senda þig þangað og það er enginn móttökusamningur við þetta land þá getum við sagt: Já, við erum búin að ákveða að þú eigir að yfirgefa landið og ef þú yfirgefur ekki landið ætlum við bara að svipta þig allri þjónustu og neita þér um heilbrigðisþjónustu þannig að þú farir sjálfviljug úr landi.

Chile-dæmið er bara eitt dæmi af mörgum. Við erum líka að tala um fólk frá Írak t.d. sem er búið að ákveða að eigi að snúa aftur til Íraks, sem mér finnst með miklum ólíkindum miðað við okkar þátt í þeirri óöld sem þar hefur ríkt. Hvað sem því líður er það óframkvæmanlegt að senda fólk aftur til Íraks og mér finnst ómannúðlegt að senda fólk aftur þangað. Fólk sem hefur reynt af veikum mætti að sýna íslenskum stjórnvöldum fram á að það búi við hættu á ofsóknum og geti þar af leiðandi ekki snúið aftur til heimalandsins — ætlum við bara að svelta það til að snúa aftur til Íraks, af öllum stöðum. Þetta eru t.d. Kúrdar, eins og hefur komið fram í skýrslum Rauða krossins sem ég hef verið að vísa til, sem eru ekki einu sinni endilega viðurkenndir af Írak. Írak tekur ekki endilega alltaf við fólki sem þó ætti að teljast ríkisborgarar þess lands, þannig að það er ekki einu sinni alltaf þannig að fólk neiti að fara heldur neitar Írak einfaldlega að taka á móti því. Fólki í þeirri stöðu ætlum við samt að henda á götuna.

Þetta er eitt af fjöldamörgum atriðum í frumvarpinu sem við gerum alvarlegar athugasemdir við og ekki bara við heldur nánast allir umsagnaraðilar sem hafa skilað inn umsögn um málið. Við höfum svo sem verið að benda á þetta frá því að málið kom fyrst fram en í þetta sinn ætlum við að benda á það þangað til að einhver (Forseti hringir.) hlustar á okkur.