Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:47]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Við hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir erum á svipuðum stað í þessu frumvarpi núna og vonandi komast skilaboðin til skila, eða alla vega einhver hluti af þeim, ef við endurtökum þau nógu oft. Það sem ég var að nefna hér rétt áðan er í fyrsta lagi eitt sem ég tel að beri vott um það hversu illa unnið frumvarpið er. Ég segi þetta af fullri virðingu fyrir frumvarpshöfundum, það er ekki ætlun mín að vera með nein leiðindi eða dónaskap þegar ég segi þetta, en frumvarpið er ekki vel unnið. Eitt af því sem veldur áhyggjum er hugtakanotkunin vegna þess að í frumvarpinu er talað um regluna um fyrsta griðland í umfjöllun um aðferð sem hefur ekkert með fyrsta griðland að gera heldur leiðir fyrir ríkið til að firra sig ábyrgð með því að senda fólk til þriðja ríkis. Ekki fyrsta ríkisins sem fólk kom til, ekki annars ríkisins sem fólk kom til, sem er svona okkar ríki hvar sem við erum, heldur bara allt annars ríkis. Þetta er sannarlega í takti við þau viðhorf sem ég hygg að búi að baki þeim hugmyndum sem frumvarpið einkennist af sem eru þær að við viljum gjarnan hjálpa fólki en bara einhver staðar annars staðar, ef það gæti bara verið annars staðar, þannig að við ætlum að senda það eitthvert annað. Frábær hugmynd.

Vandinn við þetta er — og ég ætla bara að sleppa því að fara yfir það hversu ósanngjarnt það gæti mögulega verið gagnvart umsækjanda vegna þess að ég hef ekkert endilega miklar áhyggjur af því. Segjum sem svo að viðkomandi hefði fulla möguleika á að fá vernd í því ríki sem er verið að senda hann til, en það er alls ekki skilyrði í þessu frumvarpi, þá væri þetta kannski allt í lagi. Þar eru kannski einhverjir ættingjar, þar er tungumálið hans talað og annað og ólíklegt jafnvel að slík ákvörðun yrði kærð af því að fólk myndi bara hugsa: Jæja, ókei, þá bara gerum við það. Það kemur alveg fyrir, sérstaklega þegar stjórnvöld taka ákvarðanir sem á einhvern hátt eru rökréttar fyrir umsækjanda, það gerist. Það sem er verið að gera hérna er hins vegar að það er verið að fjölga, væntanlega gríðarlega, í þeim hópi fólks sem ekki er hægt að flytja þvinguðum flutningum. Hver er ástæðan fyrir því? Hún er sú að ríki geta ekki bara tekið útlending og flutt hann eitthvert og hent honum eitthvert. Alþjóðalög koma í veg fyrir það og löggjöf ríkja vegna þess að hvert ríki ræður sínum landamærum, það á við um önnur ríki jafnt sem okkar. Til þess að geta flutt útlending til annars ríkis þarf viðkomandi annaðhvort þegar að hafa viðurkennda og gilda heimild til komu og dvalar í ríkinu eða íslenska ríkið, íslensk stjórnvöld, þarf að semja við viðkomandi ríki um að taka við einstaklingnum. Það er gjarnan gert með svokölluðum endurviðtökusamningum. Ætli Dyflinnarreglugerðin, sem leiðir af Dyflinnarsamningnum sem var upphaflega, sé ekki ein þekktasta útgáfan af slíkum endurviðtökusamningum en þeir eru til í ýmiss konar mynd og af ýmsum ástæðum, það eru líka til endurviðtökusamningar í tengslum við fanga og annað. En þetta eru samningar sem ríki gera sín á milli um það að eitt ríki megi flytja útlending til annars ríkis. Án slíkra samninga og án þess að viðkomandi hafi heimild til komu og dvalar er ekki hægt að troða viðkomandi upp í flugvél og flytja hann þangað. Hvað gerist þá? Ef einstaklingurinn getur farið sjálfur, ef honum er fært að fara sjálfur, hann er með skilríki, t.d. ef hann hefur heimild til komu og dvalar í viðkomandi ríki, þá getur hann farið sjálfur. Sömuleiðis eins og gerist í sumum tilvikum, að einstaklingurinn hefur kannski heimild til komu og trú á því að hann fái heimild til dvalar. En hvað gerist ef svo er ekki? Ef viðkomandi hefur ekki heimild til komu, ekki heimild til dvalar, ákvæðið gerir ekki skilyrði um það, og það er ekki hægt að flytja hann þangað, hvað gerist þá? Viðkomandi lendir í því sem dómsmálaráðuneytinu er mikið í mun að kalla ólögmæta dvöl sem á mannúðarfyllri hátt er kallað þolanleg dvöl þar sem það er í sjálfu sér ekkert hægt að gera í því. Þá kemur þjónustusviptingin, sem við höfum margsinnis rætt á þessu þingi, inn. (Forseti hringir.)

Ég ætla að halda aðeins áfram með þetta ákvæði á eftir (Forseti hringir.) en ég held að mér hafi tekist að útskýra hversu biluð þessi hugmynd er í grunninn. Ég vænti þess (Forseti hringir.) að hv. þingmaður og kollegi minn, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, hjálpi mér að útskýra þetta vegna þess að það að þetta sé enn þá þarna inni (Forseti hringir.) hlýtur að þýða að fólk átti sig ekki alveg á því hversu fáránleg hugmynd þetta er.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)