Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:14]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Við höfum verið að ræða mikið komu flóttamanna og hælisleitenda hingað til lands. Það er mikilvægt að horfa á stóru myndina og horfa ekki bara á það hverjir koma hingað sækjandi um hæli heldur líka hverjir koma hingað og setjast að.

Í Heimildinni í dag er grein eftir Þórð Snæ Júlíusson ritstjóra undir yfirskriftinni „Erlendum ríkisborgurum aldrei fjölgað meira á einu ári í Íslandssögunni“ og þar tekur hann saman tíu staðreyndir um erlenda ríkisborgara á Íslandi. Mér finnst að við ættum að ræða þetta aðeins. Hann kemur einmitt inn á hælisleitendur en förum hér aðeins í þetta, með leyfi forseta. Fyrsta staðreynd er að alls bjuggu 387.800 manns á Íslandi í lok síðasta árs. Íbúum hafði þá fjölgað um 11.800 á einu ári. Já, það fæddust 4.420 á síðasta ári. Það dóu 2.700 en stór hluti af fjölguninni var fólk sem flutti til landsins.

Önnur staðreynd er sú að kynsegin fólki fjölgaði um 86%. Við getum kannski verið glöð að við höfum gert breytingar sem gerðu það auðveldara að skrá sig. Það er líka athyglisvert að sjá að meðal þeirra sem fluttu til landsins var meira af körlum en konum en margir af þeim sem koma hingað koma í atvinnu. Það virðist vera meira af karlmönnum.

Í þriðja lagi er sú staðreynd að meginþorri fjölgunarinnar á síðasta ári var til kominn vegna þess að erlendir ríkisborgarar fluttu til landsins, þeim fjölgaði um 10.320. Það þýðir, eins og segir hér, með leyfi forseta:

„Erlendir ríkisborgarar með heimilisfesti á Íslandi voru 65.090 um síðustu áramót, eða 16,7 prósent þeirra 387.800 sem þá bjuggu á landinu.“

Þetta er mikil breyting nokkuð hratt en erlendir ríkisborgarar voru aðeins um 5% árið 2006 og 10% árið 2017. Já, frú forseti, við erum að verða fjölmenningarlegt þjóðfélag mjög hratt og við skulum muna að flestir þessir erlendu ríkisborgarar hafa komið hingað án þess að þurfa að sækja um hæli, þeir koma í gegnum EES.

Það er líka mikilvægt að nefnt sé, eins og segir í fjórðu staðreyndinni, að 70% af þessum erlendu ríkisborgurum settust að í Reykjavík. Það er vel umfram hlutfall Reykvíkinga af öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins þannig að það er greinilegt að Reykjavík dregur vel að.

Mér sýnist ég komast í gegnum fimmtu staðreyndina áður en ég renn út á tíma en hún er sú að 20% íbúa höfuðborgarinnar eru erlendir ríkisborgarar, þ.e. fimmti hver íbúi höfuðborgarinnar er nú erlendur ríkisborgari.

Frú forseti. Þetta er áhugavert, áhugaverður samanburður og ég vil gjarnan halda áfram með þessar staðreyndir og tala svo aðeins um framtíðina þegar ég er búinn að fara í gegnum þetta. Ég kem frú forseta þá væntanlega ekki á óvart með að biðja um að komast aftur á mælendaskrá.