Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:20]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég hef verið að fjalla um endursendingar til þriðja ríkis, eða fyrsta griðland eins og Rauði krossinn kallar þetta, sem mér finnst eitt af verstu ákvæðunum í þessu frumvarpi vegna þess að það helst svo skýrt í hendur við 6. gr. frumvarpsins. Þetta eru systurgreinar, þ.e. 8. gr. og 6. gr., og 8. gr. er í raun gerð til að auðvelda beitingu 6. gr. Það er sem sagt þannig að flóttafólk kemur hingað til lands og nú er verið að veita Útlendingastofnun heimild til þess að ákveða að flóttafólkið sem hingað komi eigi bara að fara eitthvert allt annað. Það er ekki vegna þess að það hafi þegar sótt um vernd í öðru Dyflinnarreglugerðarríki, eins og við erum vön að heyra og sjá að er ástæðan fyrir synjun um efnismeðferð. Það er ekki vegna þess að viðkomandi hafi fengið vernd í öðru Schengen- eða Dyflinnarríki. Nei, það er vegna þess að Útlendingastofnun metur það sem svo að henni finnist sanngjarnt og eðlilegt að útlendingurinn fari eitthvert annað. Það þarf ekki að vera aðildarríki að Dyflinnarsamkomulaginu. Það þarf ekki einu sinni að vera aðildarríki að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna samkvæmt þessu.

Þegar Útlendingastofnun kemst að niðurstöðu um að þú eigir að fara bara eitthvert allt annað en hingað og ef það reynist ekki mögulegt vegna þess að við erum ekki með neinn móttökusamning við viðkomandi ríki og viðkomandi hefur ekki dvalarleyfi þar, hefur mögulega aldrei komið þangað, hefur ekki rétt til að ferðast þangað, þá er hægt að synja viðkomandi um efnismeðferð og láta klukkuna byrja að tifa; 30 dagar og við sviptum þig allri þjónustu. Þetta er ekki bara fátæktargildran heldur eymdargildran sem til stendur að setja sífellt stækkandi hóp flóttafólks í.

Við höfum nú þegar heyrt um töluvert af fólki sem er í svokallaðri umborinni dvöl hér á landi og hversu einangruð þau eru og hversu vonlaus þau upplifa sig og sínar aðstæður. Verði þetta samþykkt verða þau litlu réttindi sem þetta fólk hefur tekin af því. Því verður hent út á götuna og meinað um læknisaðstoð. Þessi hópur mun fara sífellt stækkandi vegna þess að við erum að búa til heimild fyrir Útlendingastofnun í raun til að framleiða svona tilfelli og þar með, eins og Rauði krossinn og fleiri hafa bent meiri hlutanum á, stórauka heimilisleysi á Íslandi, stórauka algera neyð fólks á Íslandi, algjört úrræðaleysi.

Þetta er bara meðvituð ákvörðun hjá stjórnarmeirihlutanum sem vill svelta fólk til þess að flýja aðstæður á Íslandi. Það á í raun að láta flóttafólk flýja land. Það er það sem stendur til að gera með þessum tveimur ákvæðum saman. Það er rosalegt, virðulegi forseti, að þetta sé bara viðurkennt, að það sé í alvörunni bara markmiðið með þessu. Ef ég væri orðlaus þá væri ég einmitt orðlaus yfir þessari mannvonsku. En ég get ekki verið orðlaus vegna þess að þá fær þessi mannvonska fram að ganga. Þannig að ég held áfram að tjá mig um þetta og um þá mannvonsku sem þetta felur í sér og um hvað þetta er skaðlegt, ekki bara fyrir flóttafólkið sem um ræðir heldur líka fyrir samfélagið okkar, fyrir samfélagsgerðina okkar.

Ég held að það sé engum hollt að hafa eitthvað svona á samviskunni. Ég held að það sé mjög óhollt fyrir íslenskt samfélag að búa til raunverulega undirstétt á Íslandi sem hefur engin réttindi og enga getu til að afla sér tekna og enga getu til þess að lifa mannsæmandi lífi á Íslandi. Þetta ætlum við að búa til með þessu frumvarpi. Það er verulega mikið áhyggjuefni, virðulegur forseti, það er gríðarlega sorglegt að þetta standi til og að hér sé enginn að hlusta á hversu ómannúðlegt og óforsvaranlegt þetta er heldur gangist fólk hreinlega við því að þetta sé markmiðið, að þetta sé tilgangurinn, það eigi að neyða fólk til að fara úr landi. Það er ekki hægt að neyða alla til að fara úr landi, virðulegi forseti, það er ekki framkvæmanlegt. Fólk er að sætta sig við að búa til þessa skelfilegu eymd. Það er ótrúlegt.