Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:36]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta mál teygir anga sína í rauninni ansi langt aftur í tímann hérna á Íslandi. Förum aðeins í smá tímaflakk og kíkjum á grein sem birtist í Morgunblaðinu 7. desember 1983 sem heitir „Hugum nú að“ og er opið bréf til Jóns dómsmálaráðherra, en þá Jóns Helgasonar, eftir Þorgeir Þorgeirsson, sem ritar, með leyfi forseta:

„Heiðraði dómsmálaráðherra!

Um þessar mundir fellur skært ljós fjölmiðlanna á vandamál sem mér hefur verið hugleikið, ef svo vægilega má til orða taka, nokkur undanfarin ár. Blaðamaður við málgagn ykkar framsóknarmanna — Tímann — hefur lent í mannraunum og orðið sár í frumskógi hins reykvíska næturlífs. Það er með ógnir þessa frumskógar eins og hrellingar annara myrkviða að þá helst gera menn sér grein fyrir háska þeirra ef trúboðar lenda þar í hrakningum. Má þar nefna þá Stanley og Livingstone til áréttingar. Þeir boðuðu að vísu ekki samvinnustefnuna heldur Guðsríki.

Nú hefur semsé einn af trúboðum framsóknarstefnunnar, Skafti blaðamaður, lent í hrakningum í næturlífinu, fengið nokkra áverka sem vel má greina á fjórdálka andlitsmyndum blaðanna. Og vitaskuld sitjum við hneyksluð og horfum á þessar myndir.

Okkur líkar ekki að sjá hvernig löggæslumenn hafa leikið þennan bráðmyndarlega pilt að ósekju, því hann segist bara hafa verið að leita að frakkanum sínum í fatahengi þegar einkennisklædd villidýr fyrrnefnds myrkviðar réðust að honum.

Í mínum huga er mál Skafta bara smámál, en það hefur af fyrrgreindum ástæðum fengið verulega umfjöllun og athygli svo mér þykir rétt að nota það til að benda þér nú á það að vandamálið er miklu stærra og ógnvænlegra.

Mál Skafta er svosem einsog toppurinn á ísjakanum sem við höfum komið auga á þegar kastljósi dagblaðanna er beint að þessu. Niðrí koldimmum þagnarsjónum bíður hins vegar nífalt stærri hluti af vandamálinu.

Um þann hlutann langar mig til að ræða við þig, úrþví þú ert nú dómsmálaráðherra og þar með æðsti yfirmaður þeirra einkennisklæddu villidýra sem læðast, ekki mjög þófamjúk, um frumskóga næturlífsins hér um slóðir.

Nú vil ég enganveginn fara að gera lítið úr raunum þessa pilts né þeim sársauka sem hann þoldi að ófyrirsynju. Hinu er þó ekki að leyna að Skafti mun ná sér, marblettirnir á honum verða smámsaman fjólubláir síðan brúnir og hverfa loks. Hann snýr til vinnu sinnar á Tímanum og smámsaman fennir þetta atvik á kaf í orrahríð dagsins.

Nema við notum það til að skoða vandamálið í heild sinni.

Fyrir nokkrum árum þurfti ég að dvelja fáeinar vikur á handlækningadeild Borgarspítalans. Þá lá þar á sama gangi maður á þrítugsaldri, hið gjörfilegasta ungmenni í alla staði. Viðkunnanlegur piltur. Ástandi hans var á hinn bóginn svo varið að hann gat varla hreyft nokkurn líkamspart nema augun. Lesið gat hann bók með sérstökum útbúnaði ef einhver var til að fletta blaðsíðunum fyrir hann.

Mér skildist að batavon hans væri harla lítil.

Stofufélagar þessa unga manns sögðu mér að bæklun hans væri af völdum útkastara og lögreglu. Þessu vildi ég þá ekki trúa svona fyrirvaralaust og spurði bæði lækna og sjúkralið að þessu. Jú, rétt var það: þarna var komið eitt af fórnardýrum löggæslunnar í næturlífi Reykjavíkur.

Myndin af þessum lemstraða pilti fylgdi mér svo einhvernveginn útaf spítalanum og ég var þaðanífrá sítalandi um þetta fyrirbæri. Þá brá svo við að hvarvetna hitti ég fólk sem kunni sögur af mönnum sem lent höfðu jafn illa eða ver í þessum einkennisbúnu óargadýrum. Sumir höfðu jafnvel verið sendir afturá vitsmunastig frumbernsku sinnar með kyrkingatökum sem lögreglumenn og útkastarar kunna en fara ekki með af skynsamlegu viti heldur fautaskap og hugsunarleysi.“

Ég ætla að biðja forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá svo ég geti klárað að lesa þessa grein.