Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:44]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki hægt annað en að fresta þessari umræðu og senda þetta mál aftur inn til nefndar á meðan ráðherrar fást ekki hér til að svara fyrir þá þætti er snúa að þeirra málefnasviðum og stjórnarliðar fást ekki til að svara fyrir hvaða atriði þeir ætli að breyta í þessu frumvarpi. Það er eins og að tala við vegg hérna að ræða um þau mögulegu stjórnarskrárbrot sem þetta frumvarp mun hafa í för með sér. Það er álíka gagnlegt og að tala við vegg a.m.k. að tala við tóman salinn þar sem stjórnarliðar taka ekki þátt í þessum umræðum en ætla sér samt sem áður að þvinga frumvarp hér í gegn sem allar vísbendingar eru uppi um að gangi gegn stjórnarskrá. Þegar þetta er staðan er ekkert annað hægt að gera en að fresta umræðunni, fara með málið aftur inn í nefnd og gera nauðsynlegar lagfæringar. Mögulega er auðveldara fyrir stjórnarliða að hlusta þar (Forseti hringir.) en í þessum sal vegna þess að ekki láta þeir sjá sig hér.