Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:21]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Aftur að þessum örlagaríku dögum fyrstu þingfundaviku haustsins 2017, þegar ríkisstjórn liðaðist í sundur en von kviknaði um jákvæða úrlausn í máli stúlkna á flótta sem átti að brottvísa. Eins og ég vék að hér áðan voru ýmis fyrstu viðbrögð sem komu upp hjá fólki. Það var rætt t.d. í hópi talsmanna barna að senda út einhverja sameiginlega yfirlýsingu en af því að þar voru fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu áður en allt hafði liðast í sundur þá var mjög erfitt að ná saman um einhvern texta þar sem gæti náð utan um þann bráðavanda sem stjórnarandstaðan vildi að væri alveg skýr í textanum og það sem stjórnarliðar voru kannski, og eru mögulega alltaf, spenntari fyrir að búa vel um þetta í einhverju ferli fram á við, að setja pásu á framkvæmd slíkra brottvísana og setja einhverja endurskoðun í gang, búa svona pent um þetta en þó þannig að það væri einhver von um framþróun.

Eins man ég að við mættum einhvern tímann á fund allsherjar- og menntamálanefndar og þá hafði einhvern veginn kviknað sú hugmynd hjá eiginlega öllum við borðið að nefndin þyrfti að flytja frumvarp til að frysta svona brottvísanir og vorum við meira segja öll meira og minna komin með drög að okkar útgáfu af frumvarpinu. En þá var ekki hægt að ná utan um það vegna þess að við vorum enn þá í þessari rígbundnu stöðu stjórnar og stjórnarandstöðu þó að allt væri við það að losna í sundur.

Og svo, eins og ég sagði áðan, var þetta frumvarp varðandi veitingu ríkisfangs til þessara tveggja stúlkna og foreldra þeirra og fjölskyldu. Það var lagt fram á þessum fyrstu þingfundadögum af fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna og aftur erum við föst í þessari tvíhyggju sem þarna sýndi sig dálítið vel að nær ekkert alltaf utan um brýnustu vandamálin. Þarna mættum við öll, sátum við sama borð, horfðum á sömu stúlkurnar, hugsuðum, að ég held, öll eins, að þarna væri eitthvað ómannúðlegt, eitthvað ósanngjarnt, eitthvað óverjandi sem þyrfti að laga. En af því að við vorum í þessum tveimur fylkjum inni á þingi þá var ekki hægt vinna saman að einhverri konkret lausn þangað til böndin losnuðu og sest var saman í þennan vinnuhóp til að gá hvort hægt væri að semja drög utan um börn í þessari stöðu. Úr varð að frumvarpið sem lagt var fram var bráðabirgðaákvæði með innbyggðu sólarlagsákvæði þannig að það féll úr gildi strax og það tók gildi. Þarna vorum við að tala um stúlkur sem höfðu beðið afgreiðslu í mjög langan tíma. Málsmeðferðartíminn var mjög langur og það eru mörk í lögunum sem má segja að ef þú ferð yfir ákveðna tímalengd þá beri að taka mál til efnislegrar meðferðar. Það sem frumvarpið gerði var að það lækkaði þessi tímamörk um þrjá mánuði, úr 12 mánuðum í níu mánuði í tilviki annarrar tegundar umsókna og úr 18 mánuðum í 15 mánuði í tilviki hinnar tegundarinnar. — Já, ég held kannski áfram síðar.