Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Frú forseti. Ég held áfram að lesa úr greinargerð frumvarpsins um mannréttindasáttmálann:

„Á árinu 1992 var ríkið Tékkóslóvakía lagt niður og urðu þá um leið til tvö sjálfstæð ríki í þess stað, Tékkland og Slóvakía. Eftir þá breytingu er enn óljóst um aðild þessa fyrrum ríkis eða nýju ríkjanna tveggja að Evrópuráðinu og mannréttindasáttmála Evrópu.“

Áhugavert söguinnskot þarna, hver staðan er með þessar þjóðir á þessum tíma. Áfram, með leyfi forseta:

„Eftir ákvæðum samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis og samningsviðauka nr. 1, 4, 6 og 7 getur ríki fullgilt þá með fyrirvara um að ákveðin atriði þeirra samrýmist ekki löggjöf sinni, en með þeim hætti færist ríki undan skuldbindingu um að tryggja viðkomandi réttindi á yfirráðasvæði sínu. Af hálfu íslenska ríkisins hefur aldrei verið gerður slíkur fyrirvari við fullgildingu sem heyrir fremur til undantekninga í samanburði við önnur aðildarríki, enda hefur aðeins um þriðjungur þeirra fullgilt samninginn og alla viðauka við hann án fyrirvara.“

Kafli II. er um réttindi sem eru vernduð af mannréttindasáttmála Evrópu:

„Ákvæðum samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis er skipað í fimm kafla. Í þeim fyrsta er mælt fyrir um réttindin sem aðildarríki að samningnum tryggja hverjum þeim, sem dvelst innan yfirráðasvæðis þeirra. Í II. kafla samningsins er kveðið á um stofnun mannréttindanefndar og Mannréttindadómstóls Evrópu, en tveir næstu kaflarnir geyma reglur um skipan hvorrar stofnunar um sig og meðferð þeirra á kærum og málum um brot á sáttmálanum, auk þess sem þar eru heimildir til að ljúka meðferð kæru út af slíku broti fyrir ráðherranefnd Evrópuráðsins. Í V. kafla samningsins eru nokkur almenn ákvæði og fyrirmæli um fullgildingu og gildistöku hans. Efnisákvæði um mannréttindi eru í I. kafla samningsins, en reglur hinna kaflanna snúa að mestu að meðferð á kærum um brot á sáttmálanum.

Með áðurnefndum samningsviðaukum nr. 1, 4, 6 og 7 hefur verið aukið við þau réttindi sem talin eru í I. kafla samningsins og aðildarríkin skuldbinda sig til að virða. Með þeim skilyrðum, sem koma fram í einstökum ákvæðum mannréttindasáttmálans, er þar m.a. mælt fyrir um …“

Hérna kemur svo langur listi sem ég ætla aðeins að geyma þangað til í næstu ræðu til þess að ég nái honum í heild en í staðinn víkja þá aðeins að kannski aðstæðunum sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson var að lýsa og því þegar ríkisstjórnin féll hérna 2017 sem varð til þess að einn af ríkisstjórnarflokkunum, sá sem rauf ríkisstjórnarsamstarfið, Björt framtíð, þurrkaðist út í alþingiskosningunum þar á eftir. Það var sem sagt flokkurinn sem vildi ekki láta vaða yfir sig af Sjálfstæðisflokknum sem var refsað. Það er mjög klassískt, virðist vera, að það er alltaf verið að kenna þeim um sem bendir á vandann. Það er sagt: Uss, þetta má ekki hérna á Íslandi. Við megum ekki tala upphátt um brot valdhafa gegn siðferði eða lögum og reglum, eins og kom fram í greininni sem ég var að lesa upp áður en ég fór að renna yfir frumvarpið um mannréttindasáttmálann. Þar var einmitt rithöfundur sem greindi frá, sagði frá, á réttan hátt, ofbeldi lögreglunnar í miðbæ Reykjavíkur. Fyrir það var honum refsað, fyrir að segja satt og rétt frá en hann notaði pínulítið röng orð að mati valdstjórnarinnar, „villidýr“, „hrottar“. Fyrir það varð að dæma hann fyrir brot á hegningarlögum sem gekk gegn tjáningarfrelsisákvæðum mannréttindasáttmálans. Ég held að það sé mjög gott að hafa þetta í huga í aðstæðum dagsins í dag og hvernig hliðstæða er í því máli enn einhverjum 40 árum seinna eða svo. — Ég bið forseta vinsamlegast að setja mig aftur á mælendaskrá.