Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég ætla að renna yfir þennan lista sem er hérna í greinargerð frumvarpsins, með leyfi forseta:

Í mannréttindasáttmálanum er „m.a. mælt fyrir um eftirfarandi:

* Rétt til lífs og bann við dauðarefsingu.

* Bann við pyntingum og ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu.

* Bann við þrældómi og nauðungarvinnu.

* Rétt til frelsis og mannhelgi.

* Rétt handtekins manns til vitneskju um ástæður fyrir handtöku og hverjum sökum hann er borinn.

* Rétt handtekins manns og gæsluvarðhaldsfanga til að koma fyrir dómara og til dómsmeðferðar innan hæfilegs tíma.

* Rétt handtekins manns og gæsluvarðhaldsfanga til að bera frelsisskerðinguna undir dómstól.

* Rétt þess sem sætt hefur handtöku eða gæsluvarðhaldi til skaðabóta.

* Rétt til að fá réttláta og opinbera meðferð máls fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli innan hæfilegs tíma.

* Rétt til að dómstóll fjalli um ágreining í einkamálarétti og sakamál.

* Rétt sakbornings til að teljast saklaus uns sekt hans er sönnuð.

* Lágmarksréttindi sakbornings:

Tafarlausa vitneskju um eðli og orsök kæru.

Nægan tíma og aðstöðu til varnar.

Rétt til að halda uppi vörnum sjálfur eða með aðstoð verjanda að eigin vali.

Rétt til ókeypis lögfræðiaðstoðar ef þörf krefur.

Rétt til að spyrja eða láta spyrja vitni.

Rétt til ókeypis aðstoðar túlks.

* Bann við afturvirkni refsilaga.

* Friðhelgi einkalífs, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta.

* Hugsanafrelsi, samviskufrelsi og trúfrelsi.

* Tjáningarfrelsi, þar með talið skoðana-, upplýsinga- og hugmyndafrelsi.

* Félagafrelsi og fundafrelsi.

* Rétt til að stofna til hjúskapar og fjölskyldu.

* Jafnrétti hjóna.

* Friðhelgi eignarréttar.

* Rétt til menntunar.

* Rétt foreldra til að tryggja að fræðsla barna sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra.

* Rétt til að greiða atkvæði leynilega í frjálsum kosningum.

* Bann við frelsissviptingu vegna vanefnda á samningsbundinni skyldu.

* Ferðafrelsi og rétt til að velja sér dvalarstað.

* Bann við að ríki vísi þegni sínum úr landi eða meini honum komu til landsins.

* Bann við brottvísun hópa útlendinga úr landi.

* Réttarstöðu útlendings sem á að vísa úr landi.

* Rétt til að leita endurskoðunar á dómi í refsimáli.

* Bann við saksókn á hendur manni öðru sinni vegna afbrots sem hann hefur áður verið sakfelldur fyrir eða sýknaður af.

* Rétt fyrir þann sem sætir mannréttindabroti samkvæmt sáttmálanum til raunhæfrar leiðar til að ná rétti sínum fyrir opinberu stjórnvaldi.

* Réttindi sáttmálans skulu tryggð án manngreinarálits, svo sem eftir kynferði, kynþætti, litarhætti, tungu, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum eða öðrum skoðunum, þjóðernis- eða þjóðfélagsstöðu, tengslum við þjóðernisminnihluta, eignum, uppruna eða annarri stöðu.“

Það eru ástæður fyrir öllum þessum atriðum. Það eru dæmi fyrir öllum þessum atriðum sem valda því að fólk setti þessi réttindi í þennan sáttmála. Þau koma ekki upp úr tóminu, upp úr einhverjum upphugsuðum, mögulegum brotum eða aðstæðum sem gætu gerst. Hvert eitt og einasta atriði er vegna einhverra raunverulegra atburða sem gerðust og fólki þótti óásættanlegir og setti þar af leiðandi sáttmála um að hafa þetta sem grundvallarréttindi sem allir ættu að vera sammála um. Það eru þjóðir innan Evrópuráðsins sammála um þó að vissar þjóðir gangi dálítið á þessi réttindi, túlki þau svona án þess kannski að ná að brjóta á þeim nema það sé skoðað dálítið vel og það er erfitt að meðhöndla slíkt. Hérna erum við að tala um ýmsar þjóðir, Tyrkland á í erfiðleikum með þetta núna t.d., mjög miklum erfiðleikum, en samt reynum við hvað við getum til þess að viðhalda þessu.

„Hverjir njóta réttindanna?“ er næsti kafli og ég bið forseta vinsamlegast um að bæta mér á mælendaskrá aftur til að fjalla um þann kafla.