153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:59]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég er nú í síðustu ræðunni hér, búinn að fara yfir þær breytingar sem hafa verið gerðar á útlendingalögum frá því að þau voru samþykkt 2016 í þverpólitískri samstöðu. Ég ætla bara aðeins að rifja upp hvað það er sem ég er búinn að fara yfir áður en ég dembi mér í næstu breytingu.

Fyrst var lögunum breytt rétt fyrir jól 2016, sem sagt rúmri viku áður en þau tóku gildi. Þar var sett inn bráðabirgðaákvæði til nokkurra mánaða um það að kæra fresti ekki réttaráhrifum brottvísunar hjá umsækjendum um alþjóðlega vernd sem hafa fengið synjun ef Útlendingastofnun metur umsóknir þeirra bersýnilega tilhæfulausar og viðkomandi kemur frá ríki á lista Útlendingastofnunar yfir svokölluð örugg ríki. Þetta ákvæði var umdeilt þegar því var hleypt hér í gegnum þingið og það naut ekki stuðnings allra flokka, enda kom skýrt fram í umræðum að ef við vildum vera með mannúð að leiðarljósi í þessum lögum, ef við vildum gera hlutina eins og þeir best gerast að mati Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, þá ætti kæra alltaf að fresta réttaráhrifum brottvísunar til þess að fólk geti verið í dvöl í landinu þangað til það fær endanlega úrlausn fyrir kærunefnd eða dómstólum. Öðruvísi væri svona ákvæði bara til að geta sparkað út gagngert til þess að það geti ekki sótt sér rétt sinn.

Næsta breyting, önnur breytingin sem gerð var, var með lögum nr. 17/2017 sem voru samþykkt hér í apríl 2017. Þá lagði hæstv. dómsmálaráðherra fram varanlegt ákvæði um að kæra fresti ekki réttaráhrifum. Þar var tekist aðeins harðar á en í síðasta skipti enda var verið að lögfesta varanlega eitthvað sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Rauði krossinn og fleiri sérfræðingar vöruðu sérstaklega við. Þá var komið fram á mitt ár 2017 þegar lög nr. 54/2017 voru samþykkt og snerust þau í rauninni um að leiðrétta ákvæðið sem sneri að dvalarleyfi skiptinema þannig að það yrði aftur eins og það var fyrir gildistöku laganna. Það hafði nefnilega misfarist með aldursmörk og skiptinemar undir 18 ára aldri sem komu á grunn- og framhaldsskólastigið heyrðu ekki lengur undir þetta ákvæði sem þau höfðu þó gert áður.

Það sem ég var að fjalla um hér síðast eru lög nr. 81/2017 sem voru samþykkt í þessu stjórnmálalega tómarúmi sem myndaðist eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hrundi. Þetta var bráðabirgðaákvæði með mjög stífu sólarlagsákvæði aukinheldur sem snerist um að veita börnum efnismeðferð sem hefðu verið hér í það sem mætti kalla óásættanlega langan tíma án þess að niðurstaða hafi fengist í mál þeirra þannig að málsmeðferðartíminn var orðinn það langur að þeim var hleypt áfram í efnismeðferð. Þá bar svo við að Sjálfstæðisflokkurinn lagðist gegn frumvarpinu einn flokka. Hérna sjáum við náttúrlega ákveðið þema; þar sem um er að ræða ívilnandi breytingar þá leggst Sjálfstæðisflokkurinn gegn því, en þar sem þær herða lögin er Sjálfstæðisflokkurinn alltaf með breytingunum og jafnvel þrátt fyrir að sérfræðingar, Flóttamannastofnun, Rauði krossinn og allt það lið vari eindregið við þeim breytingum sem um er að ræða.