Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:15]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Herra forseti. Þar sem frá var horfið í minni fyrri ræðu var ég að tala um 8. gr. frumvarpsins sem við erum að ræða hérna. Í b-lið 8. gr. frumvarpsins er Útlendingastofnun veitt ný heimild, sem ekki er í lögunum fyrir, til þess að synja fólki um efnismeðferð umsóknar, þ.e. vísa henni frá og skipa því að fara til einhvers lands sem Útlendingastofnun þykir sanngjarnt og eðlilegt að viðkomandi dvelji í.

Ég ætla að byrja á að nefna ástæðuna fyrir þessu. Ástæðan fyrir þessari tillögu, þessari hugmynd, er sú að hingað leitaði talsvert stór hópur fólks vegna alvarlegs ástands í Venesúela á undanförnum árum. Hann fer eitthvað minnkandi en engu að síður var þetta nokkuð stór hópur. Það sem Útlendingastofnun sá við meðferð þessara mála var að margir þessara einstaklinga áttu ættingja og fjölskyldur sem höfðu flúið til nágrannalanda Venesúela og ekki hingað eða til Evrópu, þó að reyndar hafi langflestir sem flúðu til Evrópu farið til Spánar enda þar tungumál sem þau tala og skilja, sem auðveldar þeim augljóslega aðlögun eða inngildingu í það samfélag.

Hvers vegna leitaði svona stór hópur til Íslands? Við getum í sjálfu sér aldrei annað en giskað á það hvers vegna fólk leitar á einn stað frekar en annan. Ein mjög líkleg skýring er landfræðileg lega Íslands þar sem við erum á milli Evrópu og Ameríku. Hins vegar er það svolítið þannig að Útlendingastofnun virðist líta á það sem sitt hlutverk að koma með öllum ráðum í veg fyrir að fólk sæki hingað og um leið og það kemur einhver hópur þá þarf að finna leið til að stemma einhvern veginn stigu við því. Þar er kannski ekki nein sérstök heildarhugsun á bak við, það er oft bara svona: Hvernig getum við brugðist við þessu? Hvað getum við gert við þetta fólk annað en að taka á móti því?

Og það er líka þessi trú sem við heyrum svolítið í máli stuðningsmanna þessa frumvarps, kannski helst hv. þm. Birgis Þórarinssonar, þar sem því er haldið fram að fólk frá Venesúela sæki svo mikið til Íslands vegna þess að við séum svo æðislega lin, við séum að veita öllum frá Venesúela vernd, það séu önnur ríki ekki að gera. Þetta er rökstutt með því að við veitum flóttafólki frá Venesúela svokallaða viðbótarvernd á meðan önnur ríki veiti þeim dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

Þetta myndi kannski hljóma sennileg kenning ef annars vegar hugtökin viðbótarvernd og dvalarleyfi af mannúðarástæðum væru samræmd innan Evrópu, það eru þau ekki, og hins vegar ef fólk vissi yfir höfuð eitthvað endilega hvers konar dvalarleyfi það fær. Það veit bara að það fær dvalarleyfi og staðreyndin er sú að öll ríki eru að veita fólki frá Venesúela vernd, hvaða nafni hún nefnist. Hvort það fær dvalarleyfi í þrjú ár eða fjögur, það gildir einu. Það er ekki það sem ræður úrslitum um fjöldann heldur kannski fyrst og fremst einmitt aðgengi að landinu. Þá hefur Ísland í gegnum tíðina, vegna landfræðilegrar legu sinnar gagnvart fólki sem kemur hinum megin frá, úr austri — þá eru svo mörg Evrópuríki á milli, sem eru einnig aðilar að Dyflinnarreglugerðinni svokölluðu. Í vestri eru engin aðildarríki Dyflinnarreglugerðarinnar þannig að þegar fólk kemur frá vestri beint til Íslands er Ísland fyrsti viðkomustaður en ekki Grikkland, Ítalía, Spánn eða önnur Evrópuríki. Þetta gerir það að verkum að Ísland þarf að taka þessi mál til efnismeðferðar, ólíkt öllum hinum málunum þar sem þau geta varpað ábyrgðinni yfir á önnur Evrópuríki. Þetta eru langtum líklegri og rökréttari skýringar á því hvers vegna til Íslands leitar ákveðinn fjöldi einstaklinga frá Venesúela og meiri fjöldi en virðist vera að leita t.d. til annarra Norðurlanda, enda er Ísland í rauninni Dyflinnarríkið sem er þá flöskuhálsinn fyrir þau ríki.

Nú er ég bara að útskýra, held ég, hugsunina að baki þessu ákvæði sem er að reyna einhvern veginn að losna við þessar umsóknir frá fólki frá Venesúela, finna einhverja leið til að synja þeim þar sem við getum ekki synjað þeim, vegna þess að þau eru í hættu í heimaríkinu, og við getum ekki vísað þeim í burtu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þá hugsar Útlendingastofnun: Hvað getum við þá gert? — Ég er fallin á tíma eina ferðina enn og óska eftir því við forseta að fá að fara aftur á mælendaskrá.