Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég held áfram lestrinum, með leyfi forseta:

„Þegar mannréttindanefndin telur að aðildarríki hafi brotið gegn skuldbindingum sínum samkvæmt sáttmálanum geta afdrif máls orðið með tvennum hætti: Annars vegar getur mannréttindanefndin látið af sinni hálfu við það sitja að gera skýrslu um málið til ráðherranefndar Evrópuráðsins, svo sem henni ber ávallt að gera skv. 31. gr. samningsins. Hafi málið ekki verið lagt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu í samræmi við ákvæði 48. gr. samningsins af hálfu aðildarríkis innan þriggja mánaða frá því að skýrsla mannréttindanefndarinnar barst ráðherranefndinni skal ráðherranefndin samkvæmt ákvæði 32. gr. samningsins úrskurða hvort um brot á sáttmálanum sé að ræða. Til úrskurðar í máli þarf tvo þriðju hluta ráðherranefndarinnar. Henni er ekki settur tímafrestur til að ljúka slíku máli. Úrskurði ráðherranefndin að um brot sé að ræða tiltekur hún frest fyrir aðildarríki til að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru samkvæmt niðurstöðunni. Sem dæmi um mál sem þannig lýkur eru mál varðandi brotaefni þar sem áður hefur gengið dómur um sambærilegt tilvik og hvorki mannréttindanefndin né aðildarríki telja tilefni til að leita úrskurðar mannréttindadómstólsins um. Hins vegar getur mannréttindanefndin tekið ákvörðun um að leggja málið fyrir mannréttindadómstólinn skv. 48. gr. samningsins sem úrskurðar þá hvort um brot á sáttmálanum sé að ræða af hálfu aðildarríkis. Auk mannréttindanefndarinnar er aðildarríki einnig heimilt samkvæmt 48. gr. samningsins í eftirtöldum tilvikum að leggja málið fyrir mannréttindadómstólinn: 1) Þegar þegn þess er talinn órétti beittur, 2) þegar það hefur sjálft vísað málinu til mannréttindanefndarinnar eða 3) þegar málið beinist gegn því.

Mannréttindanefnd Evrópu tók til starfa á árinu 1955. Ekki eru fyrir hendi upplýsingar um heildarfjölda kæra sem hafa borist henni, enda hefur nefndin beitt því verklagi frá öndverðu að beina því strax á fyrstu stigum til kæranda að draga erindi sitt til baka, ef augljóst þykir að ekki séu efni til að fjalla frekar um hana. Með þessum hætti er talið að um tvær af hverjum þremur kærum, sem berast nefndinni, séu dregnar til baka. Afturkallaðar kærur eru ekki færðar í málaskrá nefndarinnar. Kærur frá einstaklingum eða samtökum þeirra, sem hafa hins vegar gengið lengra og verið skrásettar hjá nefndinni, voru samtals 21.077 á árabilinu frá 1955 til ársloka 1992. Þar af hafði mannréttindanefndin í árslok 1992 tekið afstöðu til þess hvort 18.820 kærur væru tækar til frekari meðferðar. Í flestum tilvikum taldi nefndin kæru ótæka til meðferðar án þess að sjá ástæðu til að gefa ríkinu, sem kæra beindist að, kost á að tjá sig um hana, en á þennan veg fór fyrir 15.790 kærum. Í 1.792 tilvikum mat nefndin kæru ótæka til meðferðar eftir að hafa fengið svör hlutaðeigandi ríkis. Í 1.227 tilvikum komst mannréttindanefndin hins vegar að þeirri niðurstöðu að kæra væri tæk til frekari meðferðar. Af þeim málum hafði 159 verið lokið með sátt fyrir nefndinni fyrir árslok 1992, 45 málum hafði verið vísað á bug eftir nánari athugun nefndarinnar, en í 681 tilvikum hafði nefndin látið í ljós álit á því hvort brotið hafi verið gegn mannréttindasáttmálanum og gert skýrslu um það til ráðherranefndar Evrópuráðsins. Kærur aðildarríkja til mannréttindanefndarinnar á hendur öðrum aðildarríkjum fyrir brot á mannréttindasáttmálanum hafa verið fátíðar, en frá 1955 til loka árs 1992 munu þær alls hafa verið 11 talsins.“

Næstu kaflar fjalla síðan um Mannréttindadómstólinn og ráðherranefndina og það er mikið eftir þannig að ég bið forseta vinsamlegast um að setja mig aftur á mælendaskrá til að ég geti haldið áfram yfirferðinni á greinargerð frumvarpsins um lagasetningu mannréttindasáttmála Evrópu.