Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Hermann Jónsson Bragason (Flf):

Virðulegur forseti og þingheimur. Í þessari fyrstu ræðu minni hér á Alþingi vil ég leggja áherslu á samgöngumál á Vesturlandi. Minn heimabær Stykkishólmur er fagur ásýndar en ferðir til og frá bænum geta reynst erfiðar. Ég vil gera að umtalsefni ferjuna Baldur og Skógarstrandarleiðina. Baldur er kominn vel til ára sinna og þörf er á nýrri ferju sem stenst nútímakröfur um gæði og öryggi og getur í senn þjónustað heimamenn, ferðamenn og flutningabíla. Það er öllum óboðlegt að ferja sem gegnir jafn mikilvægu hlutverki hafi oftar en einu sinni orðið vélarvana úti á miðjum Breiðafirði. Mikil uppbygging hefur átt sér stað á suðurfjörðum og ferðamennska er í mikilli sókn á Snæfellsnesi og á Vestfjörðum. Ég kalla eftir stuðningi frá þingheimi í þessu mikilvæga máli og að hægt verði að tryggja öruggar ferjusiglingar yfir Breiðafjörð sem fyrst.

Vegurinn um Skógarströnd er malarvegur og þar eru margar einbreiðar brýr. Fyrir vikið er vegurinn erfiður yfirferðar. Heimamenn í Stykkishólmi sjá hvaða bílar koma Skógarströndina, enda nær drullan nánast upp að gluggum á þeim bílum sem þaðan koma. Það er afar mikilvægt að hægt verði að aka hringinn í kringum Snæfellsnesið á bundnu slitlagi. Þá munu bættar samgöngur um Skógarströndina skipta miklu fyrir bændur á svæðinu sem og atvinnulífi í Stykkishólmi, Búðardal og víða.