Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég sé að ráðherrarnir eru allir hlaupnir út. Ég hefði gjarnan viljað tala við þá en þeir hafa auðvitað takmarkaðan áhuga á störfum þingsins. En það sem ég vildi gera að umtalsefni undir þeim lið í dag er ung kona sem heitir Iva Marín Adrichem, ung söngkona og laganemi. Hún er blind og af þeirri ástæðu var hún ráðin til að leika í auglýsingu Ferðamálastofu um gott aðgengi í ferðaþjónustu. Myndbandið fór í sýningu síðastliðið haust en nú hefur hún verið klippt út úr þessu myndbandi og á víst að ráða nýjan leikara í hlutverkið vegna meintra skoðana Ivu Marínar, skoðana sem hún kannast ekki við og segir að hafi verið hermdar upp á sig án þess að hún gangist við þeim.

Svarið frá Ferðamálastofu mun vera að hún hafi verið staðin að því að hafa verið meðlimur í einhverjum samtökum sem berjast eða börðust fyrir réttindum samkynhneigðra og tvíkynhneigðra en hafi að mati þessa stjórnvalds ekki rétta skoðun á öðrum málum. Í tíð mccarthyismans svokallaða í Bandaríkjunum voru leikarar og aðrir sem komu að gerð kvikmynda og sjónvarpsefnis spurðir: Ert þú eða hefur þú einhvern tímann verið meðlimur í kommúnistaflokknum? Þeir sem voru grunaðir um slíkt voru settir á svartan lista, bannað að taka þátt í gerð kvikmynda eða sjónvarpsefnis. Þó var þá um að ræða hættulegustu hreyfingu kalda stríðsins. En hér er spurningin sem stendur frammi fyrir okkur: Viljum við að á Íslandi geti ákveðið stjórnvald ákveðið að spyrja hvort einhver hafi verið meðlimur í samtökum, sem í þessu tilviki, (Forseti hringir.) að mér skilst, snerist um réttindi samkynhneigðra, og ef sú er raunin (Forseti hringir.) þá megi setja viðkomandi á svartan lista, herra forseti?

Iva Marín spyr: Hver er (Forseti hringir.) afstaða meiri hlutans? Ég vil vita afstöðu meiri hlutans og ég spyr þingið: Hver er afstaða meiri hlutans hér til þess?