Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Í dag birtist frétt um breyttan raunveruleika sem við stöndum frammi fyrir hjá unglingum landsins. Nú er orðið mun algengara en áður að unglingar skaði sjálfa sig á einn eða annan hátt. Talið er að um 10–18% unglinga hafi skaðað sjálf sig einu sinni eða oftar. Þetta hefur breyst mikið á síðastliðnum árum og sjálfsskaði aukist til muna. Það er mjög mikilvægt að einstaklingar sem vinna með unglingum í skólakerfinu og í tómstundum fái mjög ítarlega og góða fræðslu um það hvernig þau eigi að bregðast við ef þau verða vör við sjálfsskaða hjá nemendum. Við þurfum að huga betur að því fólki sem er í nærumhverfi þessara barna og hjálpa því að bregðast við aðstæðum sem þessum. En við þurfum einnig að huga betur að foreldrum. Foreldrar verða mjög hissa og þá sérstaklega hrædd ef þau komast að því að börnin þeirra hafi skaðað sig og því þarf að vera mun meiri fræðsla í boði fyrir foreldra um það hvað þau geti gert og hvert þau geti leitað. Raunveruleikinn er breyttur og við þurfum að laga okkur að honum. Vandamál ungs fólks eru breytt. Hér er skólaforðun orðin mikill vandi, einangrun og einmanaleiki hafa aukist. Það þarf að bregðast við breyttum raunveruleika unga fólksins og breyttum birtingarmyndum vanda þeirra og líðanar. Því langar mig að hvetja mennta- og barnamálaráðherra og heilbrigðisráðherra til að taka þennan breytta veruleika unglinga mjög alvarlega, sérstaklega í ljósi þess að sálfræðiþjónusta er enn ekki niðurgreidd þrátt fyrir að lögin geri ráð fyrir því og sömuleiðis á enn eftir að setja nægilega mikinn kraft og fjármagn í að hlúa að geðheilsu unglinga.

Forseti. Það skiptir máli að brugðist sé við strax í þessu máli.