Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Ingveldur Anna Sigurðardóttir (S):

Hæstv. forseti. Öflugt menntakerfi er grundvöllur hagsældar íslensks samfélags og því er brýnt að tryggja öllum jöfn tækifæri til menntunar. Mig langar sérstaklega að ræða háskólastigið. Við eigum að hafa metnað til að bjóða upp á menntun á heimsmælikvarða. Við ættum að skoða hvar tækifærin liggja til aukins einkarekstrar, samstarfs og sameiningar nemendum og rannsóknum til heilla. Það var til að mynda heillaskref í háskólamálum fyrir 25 árum þegar Háskólinn í Reykjavík var stofnaður þar sem einkarekstur og samkeppni stuðluðu að mikilli framþróun. Staðreyndin er sú að það verður snúið að gera mikið betur með sjö háskóla. Háskólarnir hafa ekki haft sérstakan hvata fyrr en nú þegar hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra úthlutaði 1,2 milljörðum kr. til verkefna sem stuðla að auknu samstarfi við háskóla. Markmið þessarar úthlutunar er að auka gæði og samkeppnishæfni háskólanna okkar á sama tíma og við menntum betur í takti við þarfir samfélagsins, til að mynda með stórauknu fjarnámi, fjölgun í heilbrigðismenntun og STEM-greinum. Það er mikilvægt að hafa í huga að skynsamlegt er að mennta fólk í greinum sem oft eru dýrari en samfélagslega mikilvægar.

Nú, þegar ýmsar raddir heyrast um stöðuna í fjármögnun háskólastigsins, er mikilvægt að skoða hvernig við aukum fjármuni sem skila auknum gæðum. Ráðherra eftir ráðherra hefur lofað nýju reiknilíkani sem aldrei hefur fengið að líta dagsins ljós. Það þarf að vera hvati í kerfinu til að styrkja tengsl háskólanna og atvinnulífsins. Það þarf að halda áfram og búa til hvata til aukinnar samvinnu til að bjóða upp á aukin gæði í háskólanámi og minnka yfirbyggingu skólanna. Það er þannig sem við sköpum aukin verðmæti og höldum ungu fólki hér á landi.