Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegur forseti. Við höfum á síðustu árum séð gríðarlegar hækkanir á húsnæðisverði. Fyrir örfáum áratugum var það vel raunhæfur möguleiki fyrir ungt fólk að safna fyrir útborgun, eignast sitt eigið húsnæði og komast í öruggt skjól. Ef við skoðum tölfræði Þjóðskrár um fasteignaverð má sjá að á síðustu tíu árum hefur verð fasteigna hækkað um sirka 170% en á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 40% og launavísitala um 98%. Þessar tölur þýða að ungt fólk í dag hefur ekki sömu tækifæri og við sem vorum að byrja fyrir tíu árum, hvað þá fyrir 20 árum eða fyrr. Okkur hefur mistekist.

Þó að þessi þróun sé svo sannarlega ekki einskorðuð við Ísland þá hafa þær ráðstafanir sem við höfum gripið til dugað skammt. Vandinn er flókinn og margþættur. Stór þáttur er skortur á minni íbúðum, á litlum einingum sem henta fólki til að stíga sín fyrstu skref. Annar þáttur er byggingar- og viðhaldskostnaður. Vart þarf að fjölyrða um þá kosti sem fylgja stöðlum, stöðluðum stærðum og framkvæmd. Hér á Íslandi er sú sérstaða að mjög stór hluti allra glugga- og hurðaeininga er sérsmíðaður sem eykur töluvert kostnað, hvort sem litið er til nýbygginga eða viðhalds. Með stöðluðum einingum gæti húseigandi eða byggingaraðili verslað glugga eða hurðir sem hilluvöru í næstu byggingavöruverslun í stað þess að þurfa að mæla eininguna og fá sérsmíðað eftir máli.

Ég hef, í því skyni að einfalda þetta ferli, lagt fram þingsályktunartillögu um að slíkir staðlar verða útbúnir með það í huga að lækka byggingarkostnað. Það eitt og sér mun ekki leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir en er eitt skref í rétta átt. Ég vona að þingheimur taki tillögunni vel og sýni henni stuðning í verki hér á þingi.