Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Í dag sáum við í enn eitt skiptið stýrivaxtahækkanir hjá peningastefnunefnd Seðlabankans um 0,5%, hækkun sem bitnar lóðbeint á heimilum í landinu. Peningastefnunefnd lýsti því líka yfir í morgun að verðbólguhorfur hefðu versnað frá síðasta fundi. Forsvarsmenn verkalýðsfélaga segja í dag við fjölmiðla að stýrivaxtahækkunin sé einfaldlega hryllileg tíðindi og rothögg fyrir lántakendur, rothögg fyrir fólkið í landinu sem skuldar og að hækkunin nú muni þýða að fólk geti ekki ráðið við sínar afborganir. Það er orðið öllum ljóst að ríkisstjórnin kynti undir verðbólguna með fjárlögum þar sem gjöld á almenning voru hækkuð og engar raunverulegar tekjur sóttar þar sem þenslan er í raun og veru.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar voru mjög yfirlýsingaglaðir þegar fjárlagafrumvarpið var kynnt í haust þar sem þeir sögðu að fjárlögin myndu vinna gegn verðbólgu, en það varð aldeilis ekki úr. Fjárlagafrumvarp ársins 2023 gerði í upphafi ráð fyrir 89 milljarða hallarekstri þrátt fyrir þenslu, kraftmikinn hagvöxt og hátt atvinnustig. Mikilvægum fjárfestingum var hins vegar frestað og loks voru öll krónutölugjöld ríkisins skrúfuð algjörlega upp í topp. Eftir breytingar á fjárlögunum var hallinn kominn upp í 120 milljarða og það er óábyrgt að sækja ekki tekjur á móti þessum vaxandi halla. Ríkisstjórnin þarf að reka aðra ríkisfjármálastefnu sem vinnur gegn verðbólgu en ekki grípa til tilviljanakenndra aðgerða sem bitna svo á heimilum í landinu eða hjálpa alla vega ekki heimilum í landinu að bregðast við því ástandi sem nú ríkir.