Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Eva Dögg Davíðsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Fyrir rétt rúmu ári sendi ég fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um biðtíma í kynleiðréttingaraðgerðir. Svörin voru sláandi: Meðalbiðtími í heildina hefur lengst mikið síðustu þrjú árin, úr 6,6 mánuðum árið 2019 í 31,1 mánuð árið 2021. Í þessu samhengi er mikilvægt að halda því til haga að kynleiðréttingarferli í heild sinni er langt og í mörgum fösum og aðgerðarfasi er í raun oft lokahnykkurinn á því ferli. Það eru langir biðlistar á öllum stigum ferlisins þannig að þessir biðtímar endurspegla einungis hluta af löngu krefjandi ferli og bið. Vissulega lamaði heimsfaraldur starfsemi skurðsviða og hafði áhrif á biðtíma eftir öllum aðgerðum. Og ég er ekki hér til að gagnrýna það þarfa starf sem Landspítali vinnur þó að það sé þörf á umbótum hvað varðar nýtingu skurðstofa, en það er efni í aðra ræðu. Það sem er hins vegar virkilega gagnrýnisvert er skorturinn á gagnsæi og upplýsingaflæði meðan á biðtíma stendur. Það er að mínu mati lágmark að einstaklingar viti hvenær þau megi eiga von á þjónustu, hvort það séu vikur, mánuðir eða ár af bið sem þau eiga í vændum. Bið án nokkurs fyrirsjáanleika eins og staðan er í dag getur haft verulega alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu þeirra sem um ræðir. Kvíði, félagsleg einangrun og sjálfsvígshugsanir eru algengir fylgikvillar þess að lifa í algerri óvissu.

Herra forseti. Þessi skortur á svörum um biðtíma er ekki bara óboðlegur heldur skarast þetta á við 18. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, en þar er áréttuð sú skylda læknis að gefa sjúklingum sínum skýringar á því hvers vegna bið er eftir aðgerð eða annarri meðferð. Fjöldi einstaklinga sem eru á biðlista hefur tjáð sig opinberlega um afleiðingarnar af því að vera í þessari biðstöðu. Við þurfum að hlusta á þeirra upplifanir og gera betur.