Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

tónlist.

542. mál
[17:27]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra svar við andsvari. Ég tek í það minnsta undir það að vissulega byggir allt þetta starf á þeirri grasrót sem hefur náttúrlega haldið þessum málum á lofti áratugum saman en ég velti fyrir mér hvort við séum mögulega að útiloka of stóran hóp með því að krefjast háskólamenntunar þar sem það er stór hópur sem getur átt erfitt með að afla sér háskólamenntunar þrátt fyrir að hafa heilmikið fram að færa. Þrátt fyrir að það hafi ítrekað verið vísað til þess hingað til þá hef ég oft velt fyrir mér einmitt þeirri vísun; háskólanám sem nýtist í starfi. Nú starfa ég t.d. í tæknigeiranum og þar er afar gagnlegt að hafa farið í gegnum háskólanám í tölvunarfræði en það er ekkert endilega það sem nýtist í starfi heldur eru það allt aðrir eiginleikar sem stuðla að færni í starfinu sem koma ekki endilega háskólanámi við. Þannig að ég myndi hvetja til þess að það sé skoðað hvort þessi krafa sé mögulega of íþyngjandi og hvort hún eigi endilega við.