Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

tónlist.

542. mál
[17:30]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Indriða Inga Stefánssyni fyrir að vekja máls á þessu og tel að nefndin eigi að skoða það hvort í þessu tilfelli sé mögulega of íþyngjandi að krefjast háskólamenntunar. Við fyrstu sýn hefði ég ekki talið að svo væri en það kann að vera ástæða til að skoða það betur. Eins og ég segi, virðulegi forseti, þá finnst mér mjög mikilvægt að umræða eigi sér stað í nefndinni um frumvarpið og þessa mikilvægu atvinnugrein. Þetta er grein sem hefur verið að vaxa og dafna mjög hratt. Til að mynda að þegar við settum á laggirnar endurgreiðslukerfi til handa þeim sem eru að hljóðrita tónlist á Íslandi þá sáum við mjög mikla aukningu í hljóðritun á tónlist. Svo tel ég líka að það sé mikilvægt, og við erum að skoða það í ráðuneytinu, að fara ofan í saumana á tækniþróun og skapandi greinum. Við sjáum það til að mynda þegar við erum komin með gervigreind, þegar við erum komin með allar þessar streymisveitur, að rekstrarumhverfi tónlistarfólks og margra þeirra sem starfa í listgreinum er að gjörbreytast mjög hratt. Það er því mjög mikilvægt að þetta frumvarp sé komið fram en svo þurfum við að halda áfram með því að átta okkur á þeirri þróun sem er að eiga sér stað.