Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

Mikil notkun þunglyndislyfja á Íslandi í alþjóðlegu samhengi.

[15:59]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Merkja má verulega aukna áherslu á geðrækt og geðheilsu undanfarin ár og hafa stjórnvöld hér á landi gripið til ýmissa aðgerða til að bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Þrátt fyrir aukna áherslu sýna allar mælingar að vandinn er ekki að minnka, þvert á móti. Markmiðið með því að opna þessa umræðu hér í dag er m.a. að minnka fordóma gagnvart geðröskunum, en lélegt aðgengi að geðheilbrigðisúrræðum er gjarnan talið mega rekja til fordóma gagnvart geðröskunum. Það er því ómögulegt að rekja sístækkandi vandann einungis til þess að við erum orðin duglegri að ræða hann en fyrir 30 árum. Bæði hefur ávísuðum dagskömmtum þunglyndislyfja til einstaklinga fjölgað sem og notendum lyfjanna.

Embætti landlæknis hefur ítrekað varað við þróuninni sem og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin. Mesta aukningin á ávísun kvíða- og þunglyndislyfja er hjá fólki yngra en 29 ára. Því spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann hafi í hyggju að bregðast við mikilli notkun kvíða- og þunglyndislyfja hjá börnum og unglingum og ef já, þá hvernig.

Þunglyndislyfjanotkun hefur ekki einungis aukist hjá börnum og unglingum og standa aðrir aldurshópar ekki utan þeirrar þróunar. Gríðarlegur munur er á þunglyndislyfjanotkun meðal kynja, en 111,7 dagskammtar eru á hverja 1.000 karla en 211 dagskammtar á hverjar 1.000 konur.

Ísland er í sérstöðu þegar kemur að notkun þunglyndislyfja og hérlendis er hún mikil í alþjóðlegum samanburði. Í skýrslu OECD yfir árin 2007–2019 kemur fram að árið 2017 var Ísland með langmestu notkun þunglyndislyfja meðal OECD-ríkjanna. Á því ári voru 141 dagskammtur miðað við hverja 1.000 einstaklinga á dag en eru nú 160. Næst á eftir kom Kanada með 110. Hin Norðurlöndin voru öll talsvert neðar en Ísland; Svíþjóð kom næst með 97 dagskammta og Danmörk þar á eftir með 76. Lyfjanotkun á Íslandi er yfirleitt undir meðaltali OECD-landa en þegar kemur að þunglyndislyfjunum er notkunin mest hér svo tekið er eftir. Hefur ráðherra í hyggju að bregðast við mikilli notkun þunglyndislyfja á Íslandi í alþjóðlegu samhengi? Ef já, þá hvernig?

Þó svo að einnig megi merkja aukna þunglyndislyfjanotkun í öðrum löndum er ljóst að á Íslandi er aukningin mun meiri. Gögnin sem liggja fyrir segja ekkert annað en að notkunin er meiri en annars staðar. Þau segja t.d. ekkert um gæði heilbrigðisþjónustunnar. Vert er að mæla fleiri þætti en lyfjamagn og kostnað, en útgjaldaliðurinn hleypur á hundruðum milljóna á hverju ári. Rannsaka verður hvers vegna fjöldi notenda hérlendis er meiri en hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við. Þessi sérstaða Íslands kallar á dýpri skoðun þar sem rót vandans er greind. Við sem samfélag ættum að kappkosta að eyða getgátum og svipta hulunni af því hvað það er sem orsakar aukna vanlíðan í samfélaginu okkar. Ásamt því að skoða hvað veldur verðum við að mæta aukinni þörf á geðheilbrigðisþjónustu með bættum meðferðarúrræðum og markvissari þjónustu byggðri á gagnreyndum aðferðum. Ein forsenda þess að eftirspurnin og þörfin fyrir þunglyndislyfameðferð minnki í heilsugæslunni er aukið framboð þar á öðrum gagnreyndum meðferðarleiðum. Rannsóknir benda til þess að almenningur virðist gera sér grein fyrir því að aðrar meðferðarleiðir reynast oft betri gegn vægu þunglyndi en lyfjagjöf. Þá kemur sérstaklega fram hve stór hluti nefnir mikilvægi reglulegrar hreyfingar og viðtalsmeðferðir. Það er mikill munur á depurðareinkennum og alvarlegum heilsubresti og þess vegna er mikilvægt að vandi hvers og eins sé rétt greindur og viðeigandi meðferðarúrræði valin.

Þótt flest okkar myndu helst vilja horfa á heimsfaraldurinn í baksýnisspeglinum þá verðum við að staldra við vegna aukins geðheilbrigðisvanda í kjölfar faraldursins. Stjórnvöld tóku snemma í faraldrinum ákvörðun um að reyna eftir fremsta megni að hlífa börnum við hamlandi samfélagstakmörkunum en eðli málsins samkvæmt gekk það ekki alltaf eftir. Ég tel alls óvíst að aðrir þættir eins og félagslegir þættir hafi fengið nógu mikið vægi gagnvart hinni ríku áherslu á fækkun smita. Síðustu tvær spurningarnar mínar til hæstv. ráðherra lúta því að þessum áhyggjum:

Hefur ráðherra í hyggju að meta áhrif sóttvarnaráðstafana vegna Covid-19 á félagslega einangrun? Merkjanleg er aukin tíðni þunglyndis í kjölfar heimsfaraldursins. Hefur ráðherra í hyggju að meta hvort sóttvarnaráðstafanir vegna Covid-19 hafi beinlínis stuðlað að kvíða og þunglyndi meðal landsmanna?