Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

Mikil notkun þunglyndislyfja á Íslandi í alþjóðlegu samhengi.

[16:19]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Fyrir tæpum þremur árum samþykkti Alþingi frumvarp sem heimilar heilbrigðisráðherra að semja við sálfræðinga og niðurgreiða sálfræðiþjónustu. Með þessu frumvarpi greiddi m.a. hæstv. heilbrigðisráðherra atkvæði sitt. Síðan eru liðin þrjú ár. Vonin sem samþykkt þessa frumvarps gaf ansi mörgum landsmönnum var mikil. Mörg sáu loksins í hillingum að komast til sálfræðings og reyna að takast á við sín mál undir handleiðslu sérfræðings. En von þessa fólks hefur dofnað með hverjum mánuðinum sem liðið hefur þar sem ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að semja við sálfræðinga og fjármagna stuðninginn, ekki neitt. Úrræði hópsins sem skortir hjálp eru fá þegar fólk hefur ekki efni á 20.000 kr. sálfræðitíma. Þrjú ár eru langur tími í að bíða eftir vonarglætu. Aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu er lykilatriði þegar kemur að því að greina kvilla snemma og tryggja nauðsynlega meðferð eftir að greining liggur fyrir. Samkvæmt klínískum leiðbeiningum landlæknis á gagnrýnd sálfræðimeðferð, sem er sú aðferð sem hefur í rannsóknum sýnt mestan árangur, að vera fyrsti meðferðarkostur við kvíða, þunglyndi og öðrum sálrænum kvillum. Sálfræðimeðferð eða önnur klínísk viðtalsmeðferð gerir það að verkum að ráðist er að rótum vandans og getur komið í veg fyrir eða dregið verulega úr þörfinni fyrir lyfjagjöf. Þrátt fyrir það er slík meðferð oftast ekki raunhæfur kostur nema fyrir hluta almennings þar sem framboð er oft takmarkað innan heilsugæslunnar með tilheyrandi biðlistum og töfum á nauðsynlegri meðferð. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort við munum sjá þess merki í komandi fjármálaáætlun að ríkisstjórnin muni semja við sálfræðinga. Það hefur ekki sést hingað til og við vitum að til þess að gera þetta þarf fjármagn.